135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

umhverfisáhrif Nesjavallavirkjunar.

469. mál
[14:51]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil bara ítreka að þær mælingar sem voru gerðar af prófessor Pétri M. Jónassyni voru auðvitað gerðar áður en til þessa mikla vatnsnáms úr iðrum jarðar kom. Þessar rannsóknir höfðu farið fram töluvert fyrr, löngu áður en bók hans var gefin út. Þær bentu til þess að það væri ekkert kvikasilfur að finna í seti eða síkjamara, dvergbleikju, vatnabobbum. En það getur vel verið að staðan sé öðruvísi núna.

Klárt er í dag, eða ég fæ ekki betur séð en að þriðjungurinn af skiljuvatninu fari enn þá út í Nesjavallalækinn og þá eftir einhverjum leiðum út í vatn. Og það er ekki góð umgengni við Þingvallavatn.

Ég get líka sagt hv. þingmönnum frá því að það var í mínu nafni sem umræddri umsókn í Orkusjóð var hafnað í þriðja skiptið. Auðvitað vissi ég ekkert um hana og brást ókvæða við. Það breytir ekki hinu að ég er þeirrar skoðunar að það sé Orkuveita Reykjavíkur sem eigi að sinna svona rannsóknum, framkvæmdaraðili verður að sannfæra aðra um að þarna sé vel af stað farið. Mér finnst það vera þrautalending ef ríkið þarf að grípa inn í en ég er alveg til í það ef þess þarf.

Um eftirlit að öðru leyti er það þannig að á sex stöðum við vatnið og í tólf borholum er núna reglubundið eftirlit og er reyndar búið að vera frá því sex árum fyrir Nesjavallavirkjunina, í meira en 25 ár. Þar er bara fylgst með hita og ýmsum mjög einföldum efnabreytingum, t.d. er ekki mælt kvikasilfur. Það eru því alls ekki nægilega öflugar mælingar. Menn sjá hins vegar þessar hitabreytingar, það er allt rétt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði um það.

Nú hefur Orkuveitan sagt að allt vatnið eigi að fara niður og það er búið að bora holur til viðbótar. En það er sem sagt ekki komið til fullra framkvæmda þannig að það er bara hægt að segja það að ástandið hefur ekki verið nógu gott og það er ekki orðið nógu gott og það er alls ekki hægt að útiloka það að þessi virkjun hafi leitt til þessarar uppsöfnunar kvikasilfursmagns í urriðanum. Það verður a.m.k. rannsakað áður en hægt (Forseti hringir.) er að slá þann möguleika út af borðinu og það eru hugsanlega aðrar skýringar.