135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

flutningskerfi Landsnets á Vestfjörðum.

491. mál
[14:57]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmaður las upp úr raforkuskýrslunni um það sem ábótavant er við vesturlínu og kerfið á Vestfjörðum og komst að þeirri niðurstöðu að það væri erfitt að stunda atvinnurekstur á Vestfjörðum miðað við þá bilanatíðni og lengd bilana sem þar er.

Ég mundi segja að í sumum tilvikum væri það ómögulegt. Sú nýja tegund atvinnufyrirtækja sem nú ryður sér til rúms og byggir á stöðugum, nákvæmum gagnaflutningum, sívirkum og gagnvirkum, getur einfaldlega ekki starfað við þau skilyrði. Svo einfalt er það mál. Og kem ég nú aftur að jafnræðinu sem ég lauk einhverri af fyrri ræðum á í dag.

Ef byggja á upp jafnræði milli þegna landsins þá er ekki nóg að horfa bara til menntunar og samgangna og fjarskipta. Raforkan er eiginlega ein af undirstöðunum fyrir sum svæði landsins.

En að því er varðar fyrstu spurningu hv. þingmanns þá er svarið einfalt já. Það verður ráðist í að styrkja flutningskerfi Landsnets á Vestfjörðum með það fyrir augum að auka áreiðanleika orkuafhendingarinnar. Fyrstu aðgerðirnar sem verður ráðist í er að koma á öflugu hringtengdu flutningskerfi sem tengir saman Mjólkárvirkjun, Bolungarvík og Ísafjörð og byggir á jarðstrengjum. Þetta verður einkum gert með því að leggja 66 kílóvolta jarðstreng sem færi um nýju göngin milli Hnífsdals og Bolungarvíkur og það er stefnt að því að því verki verði lokið fyrir 2010. Grófur ásláttur á hvað þetta kostar er nálægt fjórðungi úr milljarði.

Eftir þá aðgerð mundi það ekki gerast sem hv. þingmaður lýsti hérna áðan, þ.e. að ein línubilun hefði þessi gríðarlegu áhrif á allt svæðið eins og er í dag. Samhliða þessu eða á undan þá þarf líka að byggja 66 kílóvolta aðveitustöð á Ísafirði sem þarf að vera komin í rekstur árið 2009. Hún kostar um það bil 170–200 milljónir. Sömuleiðis þarf að styrkja innviði Vestfjarðakerfisins þannig að það sé settur einhver ákveðinn búnaður í kerfið sem kemur í veg fyrir að virkjanir sem eru tengdar kerfinu slái út að nauðsynjalausu þó að bilun verði á allt öðrum stað. Þannig er staðan núna. Það er einn af stærstu ágöllum kerfisins.

Þetta kostar einhverja tugi milljóna og hér er því um að ræða framkvæmdir sem eru sennilega á sjötta hundrað milljóna króna sem á að ljúka fyrir 2010. Þó að þetta séu ekki háar upphæðir og ekki miklar framkvæmdir sem ég hef hér verið að lýsa þá munu þær skipta gríðarmiklu máli til þess að draga úr helstu vanköntunum á kerfinu. Það er reyndar alveg stórmerkilegt að sumt sem ekki kostar mjög mikið skuli ekki fyrir löngu hafa verið gert eins og búnaðurinn sem ég nefndi áðan. Það er náttúrlega fráleitt að hann skuli ekki vera til staðar.

Sömuleiðis þarf auðvitað að meta öll mannvirki, ástand þeirra í orkukerfinu á Vestfjörðum þannig að ljóst sé hverju eigi að forgangsraða, hvar eigi að taka nýjar fjárfestingar fyrst á næstu tveimur til þremur árum.

Af því að við erum miklir áhugamenn um að jarðgöng séu um landsbyggðina þá get ég þess að Landsnet hefur einmitt óskað eftir því við Vegagerð ríkisins líka að það verði gert ráð fyrir jarðstreng í gegnum hin fyrirhuguðu göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Verkefnið hefur ekki verið tímasett enn þá en þá fer þetta nú að komast í bærilegt horf. Það hafa líka komið fram ákveðnar óskir um skoðanir gagnvart Landsneti, fyrst og fremst um að skoða hvort það eigi að setja línu í jörð á tilteknum köflum sem eru ekkert mjög langir þar sem veðurálag er mjög slæmt í grennd við Mjólkárvirkjun og bilanir þar út af veðurálagi, veðurhæð og snjó og ís hafa einmitt valdið allt of tíðum bilunum. Ég tel alveg fullkomlega réttlætanlegt að fara í þann kostnað sem felst í því að jarðsetja strenginn á stöðum sem þessum. Á þessu ári mun Landsnet hefja uppsetningu útstöðva í aðveitustöðvum fyrirtækisins á Vestfjörðum sem tengjast stjórnstöð Landsnets. Þetta mun bæta yfirlitið yfir kerfið og flýta uppbyggingu þess.

Að því er varðar afstöðu mína til þeirra fjögurra leiða sem fram hafa komið þá er ekki búið að taka neina endanlega afstöðu vegna þess að ávirðingar og arðsemi af þessum fjórum leiðum liggja ekki fyrir. En út frá lagafyrirmælum, flutningsgetu og líklegri álagsaukningu næstu 10–20 árin finnst mér leið 1 vera vænlegust.

Svarið við þriðju spurningunni er: Mér finnst sjálfsagt að það sé skoðað sem þingmenn kjördæmisins óska eftir. En ég er ekki alveg sannfærður um að sú gríðarlega fjárfesting sem hlýtur að felast í þeirri hringtengingu sem kemur fram í hugmynd hv. þingmanns sé réttlætanleg en það er sjálfsagt að skoða hana og meta út frá því sem (Forseti hringir.) fram kemur miðað við aðra kosti.