135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

flutningskerfi Landsnets á Vestfjörðum.

491. mál
[15:03]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda og hæstv. iðnaðarráðherra fyrir þessa umræðu. Þetta er í framhaldi af umræðu áðan um raforkumálin á Vestfjörðum. Eins og komið hefur fram hér, ef það á að ná einhverju jafnræði í landinu þá er það rétt hjá hæstv. iðnaðarráðherra að ekki er nóg að nefna samgöngur, nettengingar og menntamál heldur skipta raforkumálin ekki síður máli.

Við höfum heyrt í umræðunni um mótvægisaðgerðir ýmsar hugmyndir um fyrirtæki sem hugsanlega gætu komið sér fyrir á Vestfjörðum til þess að vega upp á móti þorskniðurskurði og þróun atvinnulífs þar. En það strandar gjarnan á ytri aðstæðum eða innri þáttum samfélagsins og við lendum einmitt í raforkunni aftur og aftur varðandi afhendingaröryggið. Það er erfitt að sjá fyrir sér að gagnabú vilji staðsetja sig þar meðan að öryggið er ekki meira en hérna.

Ég heiti því að þingmenn kjördæmisins munu styðja iðnaðarráðherra í allri viðleitni til þess að jafna stöðu Vestfjarða (Forseti hringir.) í sambandi við dreifikerfi á raforku.