135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

evruvæðing efnahagslífsins.

440. mál
[15:08]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarni Harðarson) (F):

Herra forseti. Það mál sem mig langar að vekja hér til umræðu tengist miklum framtíðarhagsmunum þjóðarinnar. Það er alveg ljóst að hér á landi er í raun hafin með nokkrum hætti óformleg evruvæðing og óformleg væðing annarra gjaldmiðla en íslensku krónunnar. Hún er ekki lengur einráð á okkar markaði eins og verið hefur. Þess vegna er mikilvægt að þing og þjóð taki þetta mál föstum tökum og átti sig á því á hvaða vegferð við viljum vera.

Ég hef saknað þess að umræðan hefur verið nokkuð einskorðuð við fáa kosti og þar hefur flokkur hæstv. viðskiptaráðherra, Samfylkingin, farið nokkuð á undan og talað fyrir því að það séu í rauninni bara tvær leiðir til. Þess vegna gladdi það mig mjög nú um páskahelgina að heyra viðtal við hæstv. viðskiptaráðherra þar sem hann tók undir að vel mætti einnig skoða þær hugmyndir sem Guðmundur Magnússon og fleiri hafa hreyft, að við gætum tengst myntsvæði Evrópumanna í gegnum EES-samninginn. Það er í raun á sömu nótum og hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur talað.

Kostirnir í þessum efnum eru fjölmargir. Ég gat horft óvanalega mikið á sjónvarp um páskana vegna frítímans sem þá var og þá sá ég líka í sjónvarpinu að þar var birt auglýsing frá einu skipafélagi þar sem var þessi skondni málsháttur: Útlandið er einn staður. Þetta er auðvitað ákveðin sýn skipafélags. En ég óttast stundum eins og umræðan er hér í þingsölum að hv. þingmenn Samfylkingarinnar trúi því að svona sé þetta, að útlandið sé einn staður og hann heiti Evrópa og þar er verslað með evru og ekki megi því um aðra kosti tala. Þess vegna gladdi það mig að viðskiptaráðherra sem er víðsýnn maður enda Gnúpverji, sér hlutina orðið örlítið öðrum augum og að vel megi vera að til séu fleiri staðir í útlöndum heldur en einn og þar af leiðandi að kostirnir séu fleiri en einn. Ég kalla eftir því hvort viðskiptaráðherra geti stutt þá hugmynd að menn skoði alla kosti, ekki bara evruvæðingu, ekki bara það hvernig því yrði háttað ef Íslendingar leysa sín myntvandamál með inngöngu í Evrópubandalagið sem ég viðurkenni alveg að er einn kostur í stöðunni og vissulega kostur sem á að skoða. En ég tel að það sé mikilvægt að skoða fleiri kosti og að sú nauðhyggja sem ráðið hefur umræðunni víki fyrir víðsýni hins alþjóðasinnaða manns.