135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

evruvæðing efnahagslífsins.

440. mál
[15:17]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Umræðan um gjaldmiðilinn hefur tekið á sig nýjan blæ og verið mjög forvitnileg síðustu vikur og mánuði. Það hefur komið fram að nokkrir ágætir framsóknarmenn, þar á meðal hv. þm. Bjarni Harðarson og formaður flokksins, Guðni Ágústsson, vilja skoða það í fullri alvöru að taka upp annan gjaldmiðil. Annaðhvort með því að Íslendingar verði aðilar að þessu sérstaka myntsvæði ERM-II eða með því að taka upp svissneska frankann.

Hv. þm. Magnús Stefánsson skrifaði nýlega grein þar sem hann virðist lýsa fylgi við það að við förum alla leið og tökum upp evru. Einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa einnig lýst fylgi við það, eins og hv. þm. Ólöf Nordal og raunar fleiri. Mér finnst þetta merkilegt. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur sett fram hugmynd um vegvísi þar sem menn mundu setjast niður og ákveða í sameiningu hvort í fyrsta lagi ætti að fara leið þjóðaratkvæðagreiðslu til að ákveða hvort menn sæktu um aðild að Evrópusambandinu og í öðru lagi hvaða breytingar þyrfti að gera á stjórnarskránni.

Ég er sammála (Forseti hringir.) hæstv. dómsmálaráðherra. Ég tel að það sé leið sem við ættum að skoða og reyna að ljúka svona á sex til níu mánuðum.