135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

evruvæðing efnahagslífsins.

440. mál
[15:18]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarni Harðarson) (F):

Herra forseti. Ég fagna svari viðskiptaráðherra. Það er ljóst að hann telur að hægt sé að skoða fleiri kosti en þessa tvo og það er mjög mikilvægt. Ég var að ræða hér myntmálin. Það er önnur umræða að ræða það hvort við skulum ganga inn í Evrópubandalagið. Um það hefur heilmikið verið rætt en skoðanir eru skiptar.

Ég vil aðeins gera leiðréttingu við það að ég tel að það séu fleiri kostir en bara einhliða upptaka annarra gjaldmiðla. Við höfum dæmi um það að þjóð, þó lítil sé, Liechtenstein, hefur tvíhliða samning við Sviss um upptöku á svissneskum franka. Þegar kemur að umræðunni um gengisáhættu og kosti þess að hafa gjaldmiðil eins og þann þá eru þeir mun fleiri en hæstv. viðskiptaráðherra gat hér um. Því bæði er það að svissneski frankinn hefur verið í nákvæmlega sömu sveiflu og evran um mjög langt árabil og allt bendir til að svo verði áfram og kostnaður fyrirtækja við að skipta úr krónu yfir í annan gjaldmiðil er mjög mikill en kostnaður við að skipta í svissneska frankann væri hverfandi miðað við það og áhætta öll miklu minni.

En það er rétt, sem kom fram hjá hæstv. iðnaðarráðherra, að mikil umræða er um þetta innan Framsóknarflokksins eins og innan annarra flokka. Það má í rauninni bæta því við að fleiri þingmenn en þeir tveir sem hann nefndi hafa lýst yfir stuðningi við að skoðaðir séu kostir eins og svissneski frankinn, þar á meðal nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokks. Það er greinilegt að umræðan er að þokast upp úr því nauðhyggjufari sem allra hörðustu Evrópusambandsaðildarsinnar hafa viljað halda henni í. Nú sé ég að viðskiptaráðherra er í liði með okkur sem erum víðsýn í þessum málum (Forseti hringir.) og því fagna ég.