135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

vegtenging fyrir vatnsverksmiðju við Hlíðarenda í Ölfusi.

436. mál
[15:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarni Harðarson) (F):

Herra forseti. Það mál sem ég vil hér brydda upp á getur kannski ekki talist stórpólitískt í þeim skilningi en það er afar brýnt fyrir atvinnuuppbyggingu á Suðurlandi. Einn af blómlegustu vaxtarsprotum okkar er vatnsverksmiðja sem er í uppbyggingu í landi Hlíðarenda í Ölfusi sem stendur við gamla Krýsuvíkurveginn.

Árið 2006 vakti bæjarstjóri sveitarfélagsins Ölfuss máls á því við fjárlaganefnd og samgönguráðuneyti að hér þyrfti mjög verulegar vegabætur til þess að mæta þessari miklu starfsemi. Það er verið að tala um 30–40 manna vinnustað á þessum stað. Það er verið að tala um 7.000 fermetra hús sem er þar í byggingu núna en vegurinn sem liggur þangað niður eftir er gamall troðningur, gamli Krýsuvíkurvegurinn — sögufróðir menn á Íslandi muna eftir því þegar hann var lagður og þótti samgöngubót þá en telst ekki beint nútímalegur í dag og hefur algjörlega látið undan þeirri miklu þungaumferð sem er um hann núna á þessum stutta spotta vegna byggingar verksmiðjunnar.

Þess vegna bíða nú sveitarstjórnarmenn og athafnamenn í Ölfusi í ofvæni eftir svörum um það hvort og hvenær ráðist verði í vegabætur á þessum stað og sannast sagna getur það í rauninni haft mjög alvarleg áhrif fyrir þessa uppbyggingu og fyrir þessa starfsemi ef ekki fæst hér nýr og betri vegur strax í sumar.

Við erum að tala um verulegan kostnað. Það skal alveg játað. Talið er að þetta kosti um 100 millj. kr. en fjárhagslegu hagsmunirnir af því að þessi verksmiðja — sem er útflutningsfyrirtæki á vatni, og hefur þegar gert mjög glæsilega samninga erlendis um sölu — komist á legg og dafni eru meiri en svo að það megi láta þetta reka á reiðanum.

Þessi vegur væri vissulega líka mikil samgöngubót fyrir byggðina sem þarna er og nú er veruleg starfsemi í hinum gamla Hlíðardalsskóla þar sem starfar m.a. iðnfyrirtæki. Við erum því að tala um veg sem snertir atvinnu nokkurra tuga einstaklinga en gjaldeyrissköpun er mjög veruleg. Það er óviðunandi fyrir það fólk sem einnig býr á þessum stað að þurfa að þola það að vegurinn sé nú á vormánuðum algjörlega troðinn niður vegna þessara þungaflutninga án þess að nokkuð sé að gert.

Ég óska því eftir svörum samgönguráðherra um það með hvaða hætti við megum búast við að hér verði leyst (Forseti hringir.) úr og treysti því að það sé góður kafli.