135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

vegtenging fyrir vatnsverksmiðju við Hlíðarenda í Ölfusi.

436. mál
[15:26]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þingmaður nefndi hefur hann borið fram til mín eftirfarandi spurningu:

„Hvaða áform hefur ráðuneytið varðandi vegtengingu fyrir nýstofnaða vatnsverksmiðju við Hlíðarenda í Ölfusi?“

Svarið við þeirri fyrirspurn er eftirfarandi: Aðkoma að Hlíðarenda í Ölfusi er um núverandi Suðurstrandarveg frá Þorlákshafnarvegi um 5,5 kílómetrar lengd. Á næstu mánuðum er fyrirhugað að bjóða út framkvæmdir við nýjan Suðurstrandarveg sem liggja mun nær ströndinni en núverandi vegur og áætlað er að framkvæmdum við hann ljúki á árunum 2010–2011. Þetta er gert í framhaldi af flýtiframkvæmdum ríkisstjórnarinnar sem tilkynntar voru á síðastliðnu sumri.

Hinn nýi vegur mun þó ekki koma í stað þess vegar sem nú liggur að Hlíðarenda frá Þorlákshafnarvegi en hann mundi að öllum líkindum tilheyra flokki héraðsvega samkvæmt vegalögum, nr. 80/2007. En Suðurstrandarvegur tilheyrir hins vegar flokki stofnvega. Við þennan héraðsveg liggja auk þess þrjú önnur býli þar sem búseta er.

En samkvæmt lauslegri áætlun um uppbyggingu þessa vegarkafla með bundnu slitlagi má gera ráð fyrir kostnaði upp á um það bil 130 millj. kr. En því miður er ekki gert ráð fyrir fjárveitingum til uppbyggingar þessa vegarkafla á samgönguáætlun árin 2007–2010 en ég minni á að við þurfum að endurskoða stuttu áætlunina næsta haust.