135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

vegtenging fyrir vatnsverksmiðju við Hlíðarenda í Ölfusi.

436. mál
[15:28]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarni Harðarson) (F):

Herra forseti. Ég þakka það svar sem hér hefur borist. Ég undra mig þó á ákveðnum þáttum þess. Það er alveg ljóst að vatnsverksmiðja í Þorlákshöfn getur ekki starfað með eðlilegum hætti ef það er í alvöru ætlan samgönguyfirvalda að samgöngubætur komi ekki til fyrr en eftir árið 2010. Hér reynir einfaldlega á þann myndugleika stjórnvalda að geta gripið inn í.

Og nú vil ég kalla eftir því ef málum er svo háttað, og hér er þessu svarað eins og þetta hafi lengi verið vitað, hvers vegna yfirvöldum í Ölfusi, sem hafa ritað samgönguráðuneyti og nefndum Alþingis um málið, hafi þá ekki verið tjáð að þetta sé með þessum hætti. Þar hafa menn einfaldlega beðið svara en engin fengið og hér kemur fram hjá hæstv. samgönguráðherra að ekki standi til að gera neitt fyrr en eftir árið 2010.

Þetta eru mjög kaldar kveðjur til þess atvinnulífs, til þessa mikilvæga fyrirtækis sem verið er að byggja upp í Ölfusinu sem veitir 30–40 manns vinnu þegar á þessu ári og allmargir vinna einnig við uppbygginguna. Mér þykir ósennilegt að þetta eigi að verða lokasvar yfirvalda því að nú ríður mjög á að við byggjum upp atvinnulíf. Við siglum inn í samdráttarskeið af því tagi að æ mikilvægara verður að hlúa að þeim heilbrigðu vaxtarsprotum sem eru í atvinnulífinu. Vatnsverksmiðja sem þessi, sem þegar hefur gert sölusamninga, má ekki við því að fá síðan kaldar kveðjur af þessu tagi frá yfirvöldum, og raunar alveg óskiljanlegt ef sú á að verða niðurstaðan.