135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

Vaðlaheiðargöng.

369. mál
[15:35]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birkir J. Jónsson spyr: Hvað líður undirbúningi Vaðlaheiðarganga? Það er eins og hann svaraði sjálfur, ríkisstjórnin hefur ákveðið að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng skuli hefjast og verði unnin í einkaframkvæmd.

Jarðfræðirannsóknum er lokið og gengið hefur verið frá skipulagsmálum. Þá er ljóst að verkefnið þarf ekki að fara í gegnum umhverfismat. Næstu skref er að hefja hönnun og gerð útboðsgagna. Það er forsenda fyrir því að hægt var að setja þetta svona fljótt í gang vegna þess að undirbúningsvinnan var öll búin.

Nú hefur sem sagt verið ákveðið að setja verkið í einkaframkvæmd, það er fjármögnun með veggjöldum að hálfu og miðast útboðið við það. Gert er ráð fyrir að hlutur ríkisins verði greiddur með árlegum greiðslum í 25 ár eftir að framkvæmdum lýkur árið 2012 sennilega, ekki 2011–2012.

Hvenær má búast við að framkvæmdin verði boðin út? Hv. þingmaður svaraði því sjálfur að búið væri að ákveða að bjóða út verkið og fagnaði þessari ákvörðun ríkisstjórnar eins og öllum öðrum góðum verkum sem þessi ríkisstjórn vinnur. Ég fagna því að hv. þingmaður skuli gera það héðan úr ræðustóli Alþingis vegna þess að ekki fannst mér hann nú fara til varnar fyrir þetta verk í umræðuþætti í sjónvarpinu ekki alls fyrir löngu þar sem frekar var nú ráðist að þessari framkvæmd. Þótti mér miður að hv. þingmaður notaði ekki tækifærið til þess að útskýra fyrir þeim sem um það spurði hvers vegna þyrfti að vinna það verk.

Hv. þingmaður líka: Er fyrirhugað að umferð um göngin verði gjaldfrjáls? Eins og fram kemur í fyrsta lið verður framkvæmdin greidd að hluta með veggjöldum. Gjaldtakan er hugsuð til þess að auðvelda fjármögnun ganganna og flýta því að þau verði að veruleika. Vegna aflabrests og atvinnumissis fiskvinnslufólks er þessi samgöngubót brýnni en ella enda tengir hún saman atvinnusvæði og eflir möguleika til vaxtar og nýsköpunar í fjórðungnum.

Sanngirnisrök hníga að því að gæta skuli samræmis í gjaldtöku af samgöngumannvirkjum um land allt. Þannig mundi afnám gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum, yrðu þau færð til samræmis við gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng, kosta ríkissjóð að minnsta kosti um 6,5 milljarða kr. vegna uppgreiðslu skuldbindinga og yfirtöku á þeirri tölu við þá einkaframkvæmd sem samið var um við Spöl á sínum tíma og innheimtugjalda til ársins 2018.

Hv. þingmaður ræddi um kosningaloforð og að hverju menn stefna. Mér er það vel kunnugt og ég er minnugur um það. Ég segi einfaldlega: Hér hefur þessi ríkisstjórn náð undraverðum árangri á níu mánuðum við að koma því verkefni í gang sem framsóknarmenn í Norðausturkjördæmi, þar sem fyrsti þingmaður féll því miður alloft þeim í hlut, gátu ekki gert í tólf ár. Í tólf ár.

Hv. þingmaður spyr um kosningaloforð. Ég minnist þess, alveg eins og hæstv. forseti, að hv. þingmaður lofaði Húsvíkingum pólýolverksmiðju í kosningunum 2003 (Gripið fram í.) og bætti um betur og bauð Mývetningum upp á kísilduftverksmiðju. Þetta er spurning um það hvort öll kosningaloforð og kosningaáform ná fram að ganga og ég tala nú ekki um ef við færum betur út í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins frá 2003.

Við erum ákaflega stolt yfir því að þetta skuli hafa gengið hér í gegn og vonandi gengur þetta allt saman vel eftir. Það má líka minna á það að hv. þingmaður lagði fram fyrirspurn til mín um Akureyrarflugvöll, hvenær framkvæmdir hæfust þar. Einhverra hluta vegna var sú fyrirspurn dregin til baka en það var líka eitt af þeim verkum sem ríkisstjórnin ákvað á síðastliðnu sumri að flýta, þ.e. framkvæmdum við Akureyrarflugvöll vegna þeirra áforma sem þar eru uppi um fiskútflutning og annað slíkt. Það mun sennilega þýða daglegt flug í tengslum við það þegar framkvæmdum við Akureyrarflugvöll verður lokið. Það átti ekki að vera fyrr en haustið 2009 miðað við síðustu áætlanir.

Virðulegi forseti: Við erum eins og áður sagði ákaflega stolt af því að þetta skuli nást fram og ég fagna því að hv. þingmaður hefur tekið gleði sína líka og fagni þessari ágætu framkvæmd sem búið er að berjast fyrir svo lengi.