135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

ferjubryggjan í Flatey.

416. mál
[15:52]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég verð að segja, þótt ég þakki hæstv. ráðherra svörin, að þau valda mér miklum vonbrigðum. Það er í rauninni algerlega óásættanlegt að það skuli hafa liðið heilt ár frá því að boðið var út timbur í viðgerð á þessa bryggju og að undirbúningur skuli ekki vera lengra á veg kominn. Ég veit vel að hæstv. ráðherra stjórnar ekki flóðum í Kamerún en væntanlega er hægt að fá bryggjutimbur víðar.

Staðan er sú að það er brýnt að viðgerð verði lokið áður en daglegar siglingar, tvisvar á dag, hefjast til Flateyjar í sumar. Það er gríðarleg slysahætta á bryggjunni þegar Baldur leggst að við þær aðstæður sem ráðherrann lýsti. Það er ekki aðeins að staurarnir séu farnir heldur einnig þvertré og gólf. Það liggur við að bryggjan lyftist upp á flóði.

Með Baldri koma kannski 150 manns í eyjuna eða fara frá henni. Þá skapast gríðarleg slysahætta á bryggjunni. Ég vek athygli á því að það er engin löggæsla í Flatey og það er engin heilsugæsla, ekkert til staðar ef eitthvað ber út af. Ég hvet ráðherra til að reyna að láta flýta þessu verki eins og mögulegt er. Nýi Baldur var sem vítamínsprauta bæði í Stykkishólmi, í Flatey og á Brjánslæk. Það er mikilvægt að þeir aðilar, heimamenn sem hafa komið upp rekstri í kringum ferðamannaþjónustu, þurfi ekki að líða fyrir það í sumar. Það á eins við um ábúendur í Flatey og á líka við um Reykhólahrepp, en þaðan hefur verið haldið úti reglubundnum siglingum til Flateyjar.

Það þarf að stórbæta aðstöðuna á bryggjunni. Aðkoman að henni er ónýt líka. Það verk hefur ekki heldur verið boðið út mér vitanlega. Ég hvet hæstv. ráðherra til að slá í klárinn. Þetta er ekki það stórt verk að það ætti að vera mönnum ofviða að drífa í því fyrir sumarið, eftir allan þennan tíma.