135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

ferjubryggjan í Flatey.

416. mál
[15:54]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er leitt að ég skuli ekki hafa gert hv. þingmann ánægðari með svari mínu. Við því er ekkert að gera. Hér er unnið hratt og vel. Eins og hv. þingmaður segir stjórnar hvorki ráðherra né hæstv. ríkisstjórn flóðum í Kamerún.

Nú er mér ekki kunnugt um hvort þetta tiltekna efni er hægt að fá í öðrum löndum en Kamerún. Ég veit það ekki. Aðalatriðið er að verkið er komið á fínt framkvæmdastig og bryggjan verður lengd í 40 metra eins og ég gat um í staðinn fyrir þá 18 sem núna eru.

Vonandi fáum við góðan verktaka og góð tilboð þannig að framkvæmdin geti farið sem fyrst í gang þannig að þetta gangi allt saman vel fyrir sig og verði fínt þegar upp verður staðið. Ég ítreka það sem ég sagði: Um tímaplanið er auðvitað ekki hægt að segja fyrr en við sjáum tilboðið og hvernig verktakinn mun takast á við þetta.

En eitt sem hefur blandast inn í þetta líka er að framkvæmdatíminn er ekki 12 mánuðir í Flatey. Hann er styttri og ekki er hægt að vinna þetta hvenær sem er.