135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

veglagning yfir Grunnafjörð.

405. mál
[18:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Herdís Þórðardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svör hennar. Eftir stendur þó að engin staðfesting liggur fyrir á því að þverun hafi skaðleg áhrif á Grunnafjörð. Eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom inn á tel ég það alveg óásættanlegt ef þarna verða mengunarslys. Við höfum horft upp á það í vetur að það hefur orðið slys við Laxá í Leirársveit og á þessu svæði hefur verið þó nokkuð mikið um umferðaróhöpp. Því segi ég: Hvað gerum við ef við lendum í því að olíubíll fer niður við Laxá í Leirársveit? Hvert færi olían? Auðvitað færi hún beint niður í Grunnafjörð þar sem lífríkið er en ef vegtenging væri yfir Grunnafjörð með þverun þar yfir og við tökum dæmi um að olíubíll fari þar út af, hvert færi olían? Hún færi beint á haf út. Þess vegna segi ég: Við skulum aðeins hugsa okkur um áður en við tökum þetta alveg út af borðinu, því að mér finnst þetta skipta miklu máli fyrir landið allt. Þetta skiptir máli fyrir Snæfellinga, fyrir Dalabyggð og þá sem þurfa að nota þetta svæði hvort sem þeir koma að norðan, vestan eða austan. Ég ætla að halda þessu máli áfram og vona að það verði ekki gleymt og grafið innan samgöngunefndar.