135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

undanþága frá skattlagningu á mengun frá flugvélum.

413. mál
[18:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst af svörum hæstv. ráðherra að staðan er óljós. Það er ekki vitað hvernig þetta fer. Hér kom fram hjá hæstv. ráðherra að ekki væri víst að fram næðist nein sérstök sýn á sérstöðu Íslands varðandi þetta mál. Það má líka sjá af lestri skýrslunnar sem við ræddum í janúar, að Ísland hefur ekki náð neinum árangri hingað til við að skýra út þessa sérstöðu, ekki tekið neitt tillit til þess. Þetta lítur því svo sem ekkert svakalega vel út.

Ef við fáum ekki skilning á sérstöðu okkar þá hlýtur samkeppnisstaða okkar í flugi að skerðast verulega. Það verður þá bara dýrara að fljúga fyrir okkur en fyrir aðra hlutfallslega, af því við þurfum að fljúga langar leiðir.

Mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra að tvennu. Í fyrsta lagi: Er ekki hæstv. ráðherra algjörlega með það á hreinu og sammála um að þetta ákvæði, sem hæstv. ráðherra er núna að berjast fyrir, er ekki umhverfisvænt? Þótt það sé réttlætanlegt og sjálfsagt að berjast fyrir því þá er það ekki umhverfisvænt. En það var íslenska ákvæðið. Er ekki hæstv. ráðherra sammála þessu? Svarið er auðvitað jú. Ég vil gjarnan fá hæstv. ráðherra til að segja það hér í pontunni. Það blasir algjörlega við.

Í öðru lagi langar mig að spyrja aftur: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að beita sér í þessu? Ég tel að það sé mjög ólíklegt að embættismannakerfið nái sérstöðunni fram. Ég held að hæstv. ráðherra verði að beita sér sérstaklega sjálf gegn öðrum ráðherrum í Evrópusambandinu, innan Norðurlandasamstarfsins og innan Evrópusamstarfsins. Hvernig ætlar hæstv. umhverfisráðherra persónulega að beita sér í málinu til að ná þessu fram. Ég held að það náist engan veginn öðruvísi.