135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

háskóli á Ísafirði.

[10:34]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli þingheims á þessu mikilvæga máli. Þannig að það sé sagt hér — ég veit ekki í hvaða skipti — þá er það eindregin afstaða stjórnarflokkanna, og ég vil segja alls þingheims, að efla háskólanám á Vestfjörðum, þannig að það sé ótvírætt. Háskólanám á Vestfjörðum verður að efla. Ég held að það sé m.a. einn af lyklunum að því að við getum haldið áfram að sjá blómlegt atvinnulíf og samfélag á Vestfjörðum.

Varðandi nefndina sem hv. þingmaður innti mig um þá veit ég að sú nefnd er að leggja lokahönd á skýrslu sína sem hún ætlar að kynna okkur á næstu dögum. Ég bind miklar vonir við að þær tillögur sem þar líta dagsins ljós muni verða raunhæfar og til þess fallnar að byggja upp háskólastarf á Vestfjörðum, hvort sem það er í formi háskóla, háskólaseturs eða í samstarfi við aðra háskóla. Lykillinn er að koma með tillögur sem eru raunhæfar til að byggja upp gott og öflugt háskólastarf sem getur stuðlað að því að hlúa m.a. að innviðum hins fjölbreytta og góða samfélags á Vestfjörðum.