135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

háskóli á Ísafirði.

[10:36]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég sé ekki að nokkur ágreiningur sé í þessu máli. Ég held að mikil ástæða sé til að við sjáum fram á sjálfstæða stofnun einmitt á Ísafirði, burðuga stofnun til að sinna háskólastarfi. En við verðum líka að hafa í huga að hér eru lög sem hv. Alþingi samþykkti samhljóða fyrir um tveimur árum og allar stofnanir sem koma að háskólastarfi þurfa að uppfylla þau lög. Það er alveg ljóst að það er ríkur og eindreginn vilji af hálfu ríkisstjórnar að efla háskólastarf á Vestfjörðum. Við munum fara gaumgæfilega yfir tillögur um uppbyggingu háskóla á Ísafirði sem munu líta dagsins ljós, að því er ég best veit, innan nokkurra vikna nú á vormánuðum. Það þarf að uppfylla öll lög. Ekki er hægt að gefa neinn afslátt varðandi það að uppfylla rammalöggjöf um háskóla en það er eindreginn vilji okkar að setja á laggirnar öfluga stofnun sem hefur það að markmiði að efla háskólastarf, hugsanlega í samvinnu við aðra háskóla en sem einnig lítur til þess samfélags sem Vestfirðirnir eru þannig að hægt verði að koma upp öflugu háskólanámi á ýmsum fræðasviðum.