135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

heilbrigðisþjónusta á Hornafirði.

[10:38]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Undanfarin ár eða um nokkuð langt skeið hafa víða á landinu verið í gildi einhvers konar samningar eða einhvers konar tilraunaverkefni þar sem tiltekin verkefni eru flutt til einstakra sveitarfélaga. Þetta hefur verið gert víða um landið og verkefnin hafa verið mismunandi. Þau hafa kannski einkum verið á sviði heilbrigðismála, öldrunarmála, félagsmála og fleiri slíkra mála og held ég að þessi tilraun, sem hefur verið í gangi um nokkuð langt skeið, hafi víða tekist mjög vel. Almennt vilja sveitarfélögin í auknum mæli fá þessa þjónustu til sín en kalla eðlilega um leið eftir fjármunum til að standa að baki þeirri starfsemi.

Ég leyfi mér því að beina fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra en sveitarfélagið Hornafjörður hefur verið með slíkan samning í heilbrigðis- og öldrunarmálum allt frá árinu 2002 og veit ég að sveitarfélagið hefur mikinn áhuga á að halda þessu verkefni áfram. Ég veit einnig að samningaviðræður um framhald samningsins hafa verið í gangi um nokkuð langt skeið, eitt og hálft ár eða svo. Ég vil því inna hæstv. heilbrigðisráðherra eftir því hvernig samningsgerðinni miði og hvort þess megi vænta að henni ljúki fljótlega. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir alla aðila að óvissu í þessum efnum sé eytt sem fyrst.