135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

Gjábakkavegur.

[10:44]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Vatnalíffræðingar innan lands og utan hafa skorið upp herör gegn fyrirhugaðri lagningu Gjábakkavegar sem er hraðbraut um þjóðgarðinn á Þingvöllum í stað núverandi Kóngsvegar. Þeir telja að mengun frá veginum geti skaðað einstakt lífríki Þingvallavatns.

Í umhverfismati og í ákvörðun um legu vegarins var því miður ekki tekið tillit til alvarlegra athugasemda þess manns sem gerst þekkir náttúru Þingvallavatns og Þingvalla, Péturs. M. Jónassonar, prófessors og fyrrverandi formanns alþjóðasambands vatnalíffræðinga. Pétur hefur nú stefnt Vegagerðinni en hann hefur áður skrifað heimsminjanefnd UNESCO og vakið athygli á þeim fyrirhuguðu spjöllum sem hann telur að veglagningin muni hafa í för með sér, en það mun hvergi tíðkast að hraðbrautir séu lagðar um þjóðgarða og staði á heimsminjaskrá. Hefur UNESCO af þessum ástæðum m.a. óskað eftir upplýsingum frá Vegagerðinni. Einn yfirmanna nefndarinnar, dr. Russler, sagði í viðtali við 24 stundir í lok mars að fylgst sé mjög vel með þessum vegaframkvæmdum og að mögulega verði staða þjóðgarðsins á heimsminjaskránni endurmetin. Heimsminjanefndin íslenska lagðist einnig gegn þessari fyrirhuguðu veglagningu og Umhverfisstofnun hefur tekið undir áhyggjur dr. Péturs vegna aukinnar niturmengunar.

Þar sem hæstv. menntamálaráðherra ber ábyrgð á heimsminjaskránni gagnvart UNESCO vil ég spyrja hvort ráðuneytinu hafi borist erindi vegna þessa frá UNESCO. Hvaða áhrif telur ráðherrann að kæra Péturs og stuðningsyfirlýsingar vatnalíffræðinga muni hafa á stöðu Þingvalla? Ég vil einnig spyrja hvort ráðherra telji að þetta ógni tilnefningu Surtseyjar á heimsminjaskrána. Og loks hvort hæstv. menntamálaráðherra styðji það að einstök náttúra Þingvalla verði einnig tilnefnd á skrána, þ.e. að flokkun í skránni verði breytt úr því að vera menning (Forseti hringir.) eingöngu í flokkinn menning og náttúra.