135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

aukið álag á heilsugæsluna.

[10:49]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég beini orðum til hæstv. heilbrigðisráðherra um brýnt mál sem varðar heilsugæsluna í landinu en eftir að komugjöld barna voru felld niður í reglugerð um áramót hefur álagið á heilsugæsluna aukist mikið. Vitna ég þar m.a. í viðtal við yfirlækni heilsugæslunnar á Akureyri nýlega. Þar er talað um að álag hafi aukist mjög mikið frá því fyrir ári síðan, að álag á vöktum utan hefðbundins dagvinnutíma hafi aukist og þar með álag á lækna sem birtist m.a. í auknum veikindum og öðru slíku og bent hefur verið á að kostnaður vegna þessara breytinga hafi aukist hjá heilsugæslunni.

Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort honum sé kunnugt um þetta mál og hafi upplýsingar um það. Einnig hvort það hafi verið tekið saman hvaða áhrif þetta hefur á rekstrarkostnað og fjárveitingar heilsugæslunnar og hvort hæstv. ráðherra muni þá beita sér fyrir auknu fjármagni til reksturs hennar en eins og við vitum öll er heilsugæslan einn mikilvægasti þáttur heilbrigðisþjónustunnar og því er að sjálfsögðu mikilvægt að henni sé gert kleift að veita þá þjónustu sem henni er ætlað.