135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um fiskveiðistjórnarkerfið.

[10:56]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns þá lýsti ég því yfir strax og fyrir lá þetta álit frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna að við mundum að sjálfsögðu taka það alvarlega. Ég hef jafnframt sagt að við munum svara með fullnægjandi hætti í tæka tíð.

Eins og hv. þingmaður nefndi hefur verið unnið að undirbúningi svars við þessu áliti mannréttindanefndarinnar innan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og við höfum kallað fyrir okkur ýmsa sérfræðinga til að fara yfir málið. Það er ýmislegt sem þarf að íhuga í þessum efnum. Við þurfum í fyrsta lagi að svara því þannig að viðunandi sé og í því sambandi höfum við verið að ráðfæra okkur við sérfræðinga sem starfað hafa á þessu sviði bæði innan lands og einnig kallað eftir upplýsingum utan lands frá.

Því miður liggur hið endanlega svar ekki fyrir á þessari stundu en að því er unnið. Þetta er auðvitað líka að hluta til pólitísk ákvörðun því að álit mannréttindanefndarinnar felur í sér gagnrýni á pólitísku sviði, þ.e. með hvaða hætti við höfum staðið að gerð laganna um stjórn fiskveiða.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni að þetta álit mun út af fyrir sig ekki kalla á einhverjar kollsteypur í stjórn fiskveiðanna en það mun auðvitað gera það að verkum að við þurfum að fara yfir það með hvaða hætti við breyttum áherslum okkar. Á þessari stundu er þeirri vinnu hins vegar ekki lokið og þess vegna get ég ekki greint frá hinum efnislegu niðurstöðum en ég mun auðvitað gera það og greina Alþingi frá því áður en hið endanlega álit verður sent til mannréttindanefndarinnar.