135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um fiskveiðistjórnarkerfið.

[10:58]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Efnislega var það kannski eins og við var að búast að hann getur ekki greint okkur frá einstökum viðbrögðum af hálfu ríkisvaldsins eða Íslendinga, enda er kannski tilgangur þessarar fyrirspurnar fyrst og fremst sá á þessu augnabliki að minna á þetta mál og undirstrika að fylgst er með því og að lögð er áhersla á það, a.m.k. af minni hálfu, að við þessu áliti verði brugðist.

Fiskveiðistjórnin er pólitískt bitbein, hefur verið og er, sem stendur styr um og þeim deilum er engan veginn lokið. Engu að síður er hér um að ræða ávirðingar um að við höfum ekki staðið undir að virða mannréttindi og það er auðvitað ekki sæmandi né viðunandi að sitja undir því og við því verður að sjálfsögðu (Forseti hringir.) að bregðast af hálfu Alþingis með myndarlegum og afgerandi hætti.