135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

útvistun á heilbrigðisþjónustu Landspítala.

[11:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir þessari utandagskrárumræðu hinn 28. febrúar síðastliðinn, daginn eftir að í Morgunblaðinu birtist auglýsing um að til stæði að bjóða út heila deild á Landspítalanum, nánar tiltekið á Landakoti. Ég vildi að umræðan færi fram áður en útboðsfrestur rynni út og varð nokkur hvellur af því fyrir páska þegar hæstv. heilbrigðisráðherra neitaði að verða við bón minni um að umræðan færi þá fram. Þá var útboðsfrestur útrunninn en ekki búið að ganga frá samningum við þann aðila sem tæki að sér reksturinn. Það var svo gert í gær. Þá var undirritaður rekstrarsamningur við hjúkrunarheimilið Grund.

Ég tel að þetta útboð eigi að skoðast bæði í þröngu og í víðu samhengi. Mér er kunnugt um að starfsfólk á Landakoti varð sem þrumulostið þegar heilbrigðisráðherra birtist í fjölmiðlum í kjölfar auglýsingarinnar í Morgunblaðinu og sagði að útboð á þessum rekstri væri til þess fallið að bæta þjónustuna. Taldi starfsfólkið sig hafa unnið vel en við of þröngan fjárhagsramma.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur réttlætt gjörðir sínar á þann veg að hann sé með einkarekstri að stefna inn í skilvirkara fyrirkomulag og er svo að skilja að hann telji að þjónustan verði betri fyrir minna fjármagn.

Í þessu samhengi er athyglisvert að skoða ummæli Magnúsar Péturssonar sem nú hefur látið af störfum sem forstjóri Landspítalans eftir að ráðherra bolaði honum úr því starfi. Í viðtali sem birtist í Fréttablaðinu í gær vekur Magnús athygli á því að ráðuneytið hefði verið tilbúið að greiða 18.260 kr. á dag fyrir sjúkrarúmið á deildinni sem boðin var út en tilboð hefði borist um 21.000 kr. frá hjúkrunarheimilinu Grund og 25.000 kr. frá ónafngreindum aðila. Af þessu tilefni segir Magnús Pétursson orðrétt, með leyfi forseta:

Þetta segir að það þurfi eitthvað að skoða verðgrundvöllinn í heilbrigðisþjónustunni. Það kemur fram að það vill enginn vinna fyrir það verð sem verið er að ætla þessari þjónustu.

Magnús áréttar að kostnaður við svona deild snúist nánast eingöngu um launagjöld starfsfólksins. Ég endurtek: Kostnaður við svona deild snúist nánast eingöngu um launagjöld starfsfólksins.

Í mínum huga gerist sú spurning mjög ágeng hvers vegna hæstv. heilbrigðisráðherra vildi ekki hækka greiðslur til Landakots þótt ekki væri nema um það sem hann er tilbúinn að greiða nýjum útboðshafa fyrir rekstur þessarar deildar sem hefur verið svo fjársvelt að ítrekað hefur þurft að grípa til neyðarlokana. Hér ræður pólitík og ekkert annað.

En hversu djúptækar eru breytingarnar sem nú eiga sér stað innan heilbrigðiskerfisins? Hæstv. heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, neitar því staðfastlega að um grundvallarbreytingar sé að ræða. Því fari fjarri að verið sé að einkavæða heilbrigðiskerfið eins og ég hef haldið fram. Um sé að ræða það eitt að nýta kosti einkarekstrar sem sé allt annar handleggur. Undir þetta hafa tekið talsmenn Samfylkingarinnar, stóra jafnaðarmannaflokksins með litlu sálina. Með litlu sálina, hvers vegna segi ég það? Það var flokkur með litla sál sem tók undir með heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins þegar hann hóf að úthýsa störfum læknaritara þvert gegn vilja læknaritara á Landspítalanum og samtaka þeirra með það yfirlýsta markmið að spara á kostnað starfsfólksins, læknaritara í því tilviki.

Samfylkingin hefur einnig tekið undir einkarekstursstefnu Sjálfstæðisflokksins enda uppskar hún lof formanns þess flokks í ræðu sem hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde flutti í Valhöll í lok september síðastliðins. Þar sagði formaður Sjálfstæðisflokksins að innan heilbrigðisþjónustunnar væru miklir möguleikar og tækifæri eða eins og hann sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Þar eru ótrúlega miklir möguleikar fram undan sem Samfylkingin er tilbúin til að vera með okkur í en aðrir flokkar voru og hefðu ekki verið.“

Þessi ummæli hafa rifjast upp að undanförnu. Alla vega koma þau upp í minn huga þegar ég hlustaði í útvarpsþættinum Speglinum á Teit Guðmundsson lækni og sviðsstjóra á hinni nýju einkareknu Heilsuverndarstöð ehf. en hún varð til í ágúst síðastliðnum þegar fyrirtækin Impro og Medica sameinuðust.

Þessi læknismenntaði talsmaður fyrirtækisins tjáði sig um þá nýbreytni að bjóða heilbrigðisþjónustu fyrirtækisins á sérstökum afsláttarkjörum handhöfum gull- og platínukorta Kaupþingsbanka. Teitur talaði um nýtt „product“ sem hefði ekki verið til á markaði hingað til og bætti því síðan við í anda forsætisráðherrans að í því fælust mikil tækifæri.

Nýlega gerði hæstv. ráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson samning við Heilsuverndarstöðina ehf. um hvíldarinnlagnir (Forseti hringir.) fyrir aldraða svipaða þeirri og tíðkast hefur á Landakoti fram að þessu, hinu fjársvelta Landakoti. Í leiðara Morgunblaðsins hinn 15. febrúar (Forseti hringir.) er fjallað um þetta og haft eftir heilbrigðisráðherra að hér væri um að ræða eitt skref í langri vegferð. Það er nefnilega það. Eitt skref í einu. Það er verið (Forseti hringir.) að markaðsvæða heilbrigðiskerfið á Íslandi skref fyrir skref. Eða hvers vegna eru útboð að verða skilyrði fyrir aukinni (Forseti hringir.) fjárveitingu til heilbrigðisþjónustunnar? Hvers vegna beitti hæstv. heilbrigðisráðherra sér ekki (Forseti hringir.) fyrir auknum fjárveitingum beint til Landakots í stað þess að bjóða út heila deild (Forseti hringir.) fyrir heilabilað fólk?