135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

útvistun á heilbrigðisþjónustu Landspítala.

[11:07]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil að gefnu tilefni leiðrétta hv. þingmann alla vega hvað einn hlut varðar svona til að byrja með. Hv. þingmaður veit það að ég tók það strax mjög skýrt fram að starfsfólk á Landakoti hefur staðið sig afskaplega vel. Þegar þessi túlkun kom fram í fréttum sendi ég umsvifalaust leiðréttingu á fréttastofu þar sem mín orð voru ekki túlkuð rétt.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að kostnaðargreina eigi heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgi sjúklingum. Þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Skapa verði svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustunni m.a. með útboðum á þjónustusamningum en jafnframt tryggt að allir hafi að henni jafnan aðgang.

Hér skyldi öllum vera ljóst að einkarekstur sem greiddur hefur verið að opinberum sjóðum er og hefur verið snar þáttur innan íslenska heilbrigðiskerfisins um árabil og nægir þar að nefna ýmsar öldrunarstofnanir, endurhæfingarstöðvar, einkareknar læknastofur og heilsugæslustöðvar. Heilbrigðisþjónusta sem veitt er af öðrum aðilum en ríki nemur um það bil 30% af veittri þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og eru sjálfseignarfélög og samtök eins og Karítas, SÁÁ, endurhæfingarstöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, Krabbameinsfélag Íslands, Hjartavernd, Reykjalundur, Rauði kross Íslands, Læknavaktin og heilsugæslan í Salahverfi dæmi um slíka þjónustu. Starfsemi þessara aðila hefur alla tíð verið fjármögnuð úr opinberum sjóðum og öllum sem á þurfa að halda tryggður aðgangur að þeirri þjónustu næstum, ef ekki algjörlega, að kostnaðarlausu.

Hvað varðar útvistun verkefna hjá Landspítalanum sérstaklega vil ég byrja á því að taka það fram að það verkefni sem hér um ræðir er alfarið í höndum stjórnenda spítalans. Stjórnendur Landspítalans hafa bæði þá þekkingu á rekstrinum sem til þarf og reynslan er að semja um útvistun verkefna innan þeirra reglna og laga sem gilda um samninga almennt og meðferð upplýsinga sérstaklega.

Dæmi um slíka útvistun þar sem vel hefur tekist til er að í nóvember 205 hófust með leyfi heilbrigðisráðuneytisins samningar við Art Medica IVF-Iceland sem mun annast tæknifrjóvganir á Íslandi og er í eigu íslenskra lækna sem lengst af höfðu verið með þessa starfsemi innan veggja spítalans.

Hinn 1. febrúar 2006 var gerður samningur milli Landspítalans og IVF-Iceland um glasafrjóvgun og smásjárfrjóvgun. Framkvæmdar voru 320 meðferðir. Fyrsta árið var kostnaður 45 milljónir. Starfsemin hefur nú aukist og hefur samninganefnd heilbrigðisráðherra annast samningsgerð við fyrirtækið og Tryggingastofnun ríkisins annast stjórnun og rekstur samningsins eftir að fjármagn til þessa verkefnis var flutt frá Landspítalanum til Tryggingastofnunar.

Þá hefur sjúkraþjálfun fjölfatlaðra í Kópavogi verið rekin með samningi við Landspítalann sem gerður var að frumkvæði starfsmanna og spítalans. Þá er flutningur blóðs milli Blóðbanka og spítalans í höndum Securitas samkvæmt samningi við spítalann. Ræstingu spítalans er einnig að stórum hluta verkefni sem er útvistað með samningi við ES sem er eitt stærsta fyrirtækið á þessum markaði.

Ég vil líka nefna nýlegt útboð á ritun sjúkraskrár þar sem læknaritarar Landspítalans höfðu ekki undan og 29.000 skrár voru óskrifaðar. Í kjölfar útboðsins samdi Landspítalinn við Conscriptor ehf. um ritun sjúkraskráa. Hér var um að ræða hreina viðbót en engum læknaritara innan Landspítalans var sagt upp.

Samningurinn leiddi af sér umtalsverðan sparnað á hverja færslu og til viðbótar var heilbrigðisstofnun Siglufjarðar, sem var með næsthagstæðasta tilboðið, boðið aukaverkefni. Þá eru nú í gangi viðræður við læknaritara spítalans, stéttarfélög og landlækni um endurmenntun læknaritara á Landspítalanum.

Ég nefni líka stórt lyfjaútboð sem farið var í fyrr í vetur þar sem um 30% afsláttur fékkst frá skráðu meðalgengi. Útboði á orku er lokið. Útboð hefur verið gert á akstri, endurútboð á símaþjónustu, endurútboð á ræstingu og svona mætti áfram telja.

Varðandi útboð á rekstri 18 rúma biðdeildar á L4 í Landakoti sem hv. þingmaður spyr sérstaklega um vil ég árétta að Landspítalinn hefur gert samninga við verktaka frá 1995 um rekstur hvíldar- og biðdeildar fyrir aldraða. Þegar verið er að tala um að nú sé gengið lengra en áður er átt við að í fyrri útboðum útvegaði Landspítalinn allar rekstrarvörur, allt annað en starfsfólk. Nú útvegar spítalinn eingöngu húsnæði og húsbúnað. Er þá stóra hættan að mati þeirra sem hér sjá ógn og skelfingu í öllum hornum sú að einkaaðilar — í þessu tilfelli hjúkrunarheimilið Grund — sjái um matinn eða þvottinn? Er það stóra hættan?

Virðulegi forseti. Hvað erum við raunverulega að tala um? Það útboð sem hér um ræðir snýst um 18 rúma deild fyrir aldraða á Landakoti sem var ekki í rekstri á Landspítalanum vegna manneklu. Í kjölfar samningsins við Grund opnar deildin 14. maí næstkomandi. Heilbrigðisyfirvöld greiða Landspítalanum daggjald fyrir hverja rúmvist upp á 18.260 kr. Rekstur álíka deildar kostaði Landspítalann hins vegar 22.262 kr. á rúm í fyrra. Samningur spítalans við Grund er upp á 19.767 kr. á rúm eftir viðræður Landspítalans og Grundar en í upphafi tilboð Grundar hljóðaði upp á 20.998 kr. Sparnaður af samningi Landspítalans og Grundar er því 16,4 millj. kr. á (Forseti hringir.) ársgrundvelli fyrir spítalann.

Í minnisblaði stjórnar Landspítala til heilbrigðisráðherra um þetta tiltekna mál segir að sjá megi að samningurinn sé spítalanum hagstæður og þar muni hann styðja vel við klíníska þjónustu á (Forseti hringir.) spítalanum þannig að þarna fengjust rúm undir 18 aldraða sjúklinga sem bíði vistunarúrræðis innan spítalans.