135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

útvistun á heilbrigðisþjónustu Landspítala.

[11:17]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. málshefjanda að ástæða er til að ræða stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum í heild sinni, enda hef ég þegar óskað eftir utandagskrárumræðu við heilbrigðisráðherra um það efni þannig að okkur gefist kostur á að ræða framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar, áform hennar og grundvallaratriðið í þeim. Ég tek hins vegar ekki undir þau sjónarmið málshefjanda að sú breyting sem er tilefni umræðunnar, að þjónusta á Landakoti færist frá Landspítala til Grundar, sé grundvallarbreyting. Það er ekki svo, virðulegi forseti. Þjónusta við aldraða hefur verið veitt af býsna mörgum öðrum aðilum en ríkinu í gegnum tíðina og er svo um allt land. Það hefur að mörgu leyti gefist vel. Þar hafa staðið að baki félagasamtök og aðrir aðilar sem hafa viljað huga að öldruðum og leggja starfskrafta sína fram til þess, og stundum rutt brautina vegna þess að ríkið var svolítið seint í svifum í þeim efnum.

Mér finnst að hæstv. ráðherra eigi helst að leggja áherslu á að ljúka við gerð þjónustusamninga við alla þá aðila sem veita öldrunarþjónustu fyrir hönd ríkisins. Ríkið borgar á milli 15 og 20 milljarða kr. á hverju ári án þess að fyrir liggi þjónustusamningur sem skilgreinir hvaða þjónustu á að veita fyrir það fé sem lagt er af hendi. Þetta er verkefni sem mér finnst að hæstv. heilbrigðisráðherra megi taka föstum tökum og taka til hendinni í þeim efnum til að tryggja hagsmuni ríkisins og tryggja hagsmuni aldraðra þannig að þeir fái þá þjónustu sem ríkið er að borga fyrir.

Virðulegi forseti. Fram kom hjá hæstv. ráðherra að sparnaður leiddi af þessu. Það finnst mér ekki vera aðalatriði málsins, af þessu á að leiða betri þjónusta. Ég vil að lokum segja, virðulegi forseti, að niðurskurður á fjárveitingum til Landspítala Íslands í upphafi síðasta kjörtímabils var skaðræðisverk sem við sitjum enn uppi með óbætt.