135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

útvistun á heilbrigðisþjónustu Landspítala.

[11:20]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Um nokkurn tíma hefur gengið erfiðlega að manna öldrunardeildir á Landakoti en þrátt fyrir að ástæða sé til hafa hvorki heilbrigðis- né fjármálaráðherra brugðist við vandanum, hvorki á öldrunardeild Landakots né öðrum öldrunarstofnunum, heimaþjónustu sveitarfélaganna eða heilbrigðisstofnunum almennt. Vegna viðvarandi skorts á fólki í umönnunarstörf á heilabilunardeild Landakots var deildinni lokað en þjónusta færð að hluta inn á aðra deild. Ástandið hefur því verið óviðunandi fyrir alla aðila. Enn og aftur er brugðist við vandanum með því að fá utanaðkomandi aðila til að sjá um rekstur einnar deildar, þ.e. þeirrar deildar sem staðið hefur ónotuð vegna fjárskorts. Í fyrra skiptið var leitað til einkarekinnar hjúkrunarþjónustu en nú er þjónustan boðin út undir þeim formerkjum að veita betri þjónustu.

Hvers vegna var verið að bjóða reksturinn út í stað þess að styrkja rekstrargrunn deildarinnar? Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er einkarekin heilbrigðisþjónusta á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Í öðru lagi er verið að komast hjá því að taka almennt á launamálum og starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna í opinberri þjónustu. Með þessum hætti er hægt að taka út eina deild og hækka framlög til hennar án þess að aðrar deildir geti gert sömu kröfu um hækkun framlaga.

Tilboðin sem bárust í rekstur öldrunardeildar Landakots voru bæði umtalsvert hærri en sú upphæð sem Landakoti er ætlað að reka deildina fyrir. Ætla má að tilboðin liggi nærri raunverulegum rekstrarkostnaði deildarinnar og séu lýsandi dæmi um þann allt of þrönga fjárhagsramma sem Landspítalinn býr við. Aðferðafræði hæstvirtra ráðherra þjónar vel þeim tilgangi að komast hjá opinni umræðu um grundvallarbreytingar á rekstri heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi, breytingar sem ryðja braut einkavæðingar á þessu viðkvæma þjónustusviði.

Hæstv. forseti. Ég fagna því að heilabilunardeildin á Landakoti verður opnuð aftur og hvet til þess að útboðstilraunin verði nýtt til að tryggja raunsönn fjárlög til reksturs öldrunardeildarinnar, þjónustunnar og annarra heilbrigðisstofnana. Mér þykir miður að sú leið hafi verið valin sem hér var gert.