135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

útvistun á heilbrigðisþjónustu Landspítala.

[11:22]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Engum dylst hvað stendur í stefnuskrá ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um heilbrigðismál og heilbrigðisstofnanir og þetta er í takt við það. Það er hins vegar með ólíkindum það vantraust og þeir fordómar sem að mínu mati felast í skoðunum Vinstri grænna. Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að rekja margt hvað það varðar. Hins vegar er það svo að við sjáum í menntamálum þjóðarinnar hvernig ólík rekstrarform hafa skilað okkur áleiðis til betri þjónustu við þá sem þar stunda nám. Það er öllum ljóst. Hræðsla Vinstri grænna við að fara áþekka leið í heilbrigðismálum til að veita betri þjónustu til þeirra sem á henni þurfa að halda er að mínu mati með ólíkindum og það eru hvergi, með fullri virðingu, hæstv. forseti, fyrir skoðunum Vinstri grænna, nein rök. Hvers vegna á að halda í hið opinbera kerfi? Hið opinbera kerfi er kerfi sem hið opinbera rekur, það ræður fólk. Það er fólk nákvæmlega eins og það fólk sem starfar í einkarekstri. Það eru hæfni fólks og fjármunir sem ráða því hvaða þjónustu hægt er að veita og hvernig. Um það snýst málið.

OECD-skýrslan sýnir að Ísland veitir góða þjónustu í heilbrigðismálum. (Gripið fram í: Til hvers þá að breyta því?) OECD-skýrslan segir líka: Það má fá meira út úr þeim fjármunum sem lagðir eru í heilbrigðiskerfið. (Gripið fram í.) Það er það sem við viljum sjá. Við viljum sjá betri þjónustu fyrir þá fjármuni sem við leggjum til. Um það snýst málið, betri þjónustu fyrir þá sem á þurfa að halda með bættu rekstrarformi.