135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

útvistun á heilbrigðisþjónustu Landspítala.

[11:27]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur tekur undir og ítrekar í nafni Samfylkingarinnar og alls þorra þjóðarinnar að einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar verður aldrei innleidd hér á landi meðan við ráðum einhverju. Forsenda velferðarkerfisins er sú að allir hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Það er sá hornsteinn sem við stöndum vörð um og það er grundvallaratriðið. Hv. þm. Ögmundur Jónasson á samleið með okkur á þessari vakt, okkur öllum, en það er misskilningur hjá honum að einkavæðingin sé að ryðja sér til rúms. Hæstv. ráðherra hefur útskýrt að svo er ekki og hvort þjónustan er veitt af einkaaðilum eða opinberum er útfærsluatriði á þjónustu og umönnun sem öllum stendur til boða á jafnréttisgrundvelli.

Það er óviðeigandi málflutningur, hv. málshefjandi, að uppnefna Samfylkinguna sem „litla sál“ vegna þess að Samfylkingin stendur, með hv. málshefjanda, hæstv. ráðherra og allri þjóðinni, vörð um það kerfi sem hér hefur verið í heilbrigðismálum, menntamálum og öðrum slíkum velferðarmálum. Það er kjarni málsins.