135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:09]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ekki að spyrja því þegar stóra sálin kemur hér upp í ræðustól að málefnalegt er innleggið. (Iðnrh.: Það var ekki verra en hjá þér.) Hæstv. iðnaðarráðherra fær að láni ummæli formanns flokksins um hinn hefðbundna reiðilestur og Soffíu frænku. Það er hið stórbrotna innlegg Samfylkingarinnar til umræðna um vanda íslenskra efnahagsmála um þessar mundir að ætla að reyna að afgreiða þann sem hér stendur þannig og að ég neiti að horfast í augu við veruleikann. Hver ætli hafi nú oftar hér á undanförnum missirum (Gripið fram í.) talað fyrir því að menn tækju hlutina alvarlega, horfist í augu við viðskiptahallann, skuldasöfnunina og aðra slíka hluti? Hefur það verið veruleikafirring, skortur á raunsæi? Nei. Ætli einhverjir aðrir þurfi nú ekki að taka það til sín.

Það er hins vegar mikið umhugsunarefni að Samfylkingin sem undir lokin að minnsta kosti á síðasta kjörtímabili fór að taka þátt í því með okkur að gagnrýna stefnuna, meira að segja stóriðjustefnuna, situr núna eins og þegjandi meðvitundarlaus klessa í þessari ríkisstjórn og hefur verið á bak við forsætisráðherrann að gera ekki neitt. Svo koma einhverjar stórkarlalegar hugmyndir og allt í einu vill Samfylkingin gera miklu meira en aðrir.

Þegar við lögðum til 80 milljarða króna styrkingu á gjaldeyrisvaraforðanum, veit hæstv. iðnaðarráðherra hvað hann var stór þá? Hann var tæpir 150 milljarðar umreiknaðir á gengi þess tíma þannig að 80 milljarða aukning miðað við gengið eins og það var þá var umtalsverð. Út af fyrir sig hefðum við kannski átt að setja þetta fram í evrum og segja að við vildum auka gjaldeyrisvaraforðann um til dæmis einn milljarð evra. Þá hefði Samfylkingin kannski frekar tekið mark á því. Þá hefði hreinlega glaðnað yfir Samfylkingunni.

Nei. Veruleikinn er auðvitað sá að aumingja vesalings Samfylkingin á nú mest bágt af öllum. Hún á enn meira bágt en Framsókn en er þó Framsókn lemstruð eftir tólf ára þjónkun við íhaldið. (GÁ: Bíddu nú við.) Samfylkingin er í alveg hryllilegri stöðu með þetta. Einhvern veginn er það þannig að hún hefur lent í þessu óskaplega dapurlega hlutverki að vera þarna sporgöngumaður forsætisráðherrans (Forseti hringir.) sem hefur verið steinsofandi eins og allir vita og ekkert lagt til. (GÁ: Þú vildir nú með íhaldinu.) Hér eru efnislegar (Forseti hringir.) tillögur, herra forseti. (GÁ: Þú vildir …) Hér eru efnislegar tillögur og ég bið menn að ræða þær.