135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:11]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hér eru efnislegar átta tillögur og af þeim eru fimm þeirrar gerðar að ríkisstjórnin er þegar með einhverjum hætti búin að grípa til þeirra ráðstafana og í miklu sterkari mæli en hv. þingmaður nefnir hér.

Hv. þingmaður talar um sofandahátt forustu ríkisstjórnarinnar og klessur. Af því tilefni vil ég segja að ég bið hv. þingmann afsökunar ef ég hef sært hann með því að vitna til heimsbókmenntanna í gegnum Kardimommubæinn. Það er greinilegt að þingmaðurinn er eitthvað er eitthvað sár fyrir þegar minnst er á Soffíu frænku. (GÁ: Enda er hann ekkert líkur henni.)

Herra forseti. Ríkisstjórn getur gripið inn í stöðu af þessu tagi með tvenns konar hætti, með beinum aðgerðum og í öðru lagi með því að lýsa yfir staðföstum vilja til þess að taka á móti við tilteknar aðstæður. Það hefur hæstv. forsætisráðherra gert og hæstv. utanríkisráðherra í þeim mæli sem við sjáum speglast á mörkuðum síðustu daga. Heldur hv. þingmaður að það sé einhver tilviljun að fall gengisins hefur stöðvast, að markaðir eru að fara upp, að krónan hefur verið að fara upp? Að sjálfsögðu ekki. Það er í beinu samhengi við þá staðreynd að forustumenn ríkisstjórnar hafa lýst því staðfastlega yfir það yrði gripið til tiltekinna aðgerða ef þörf væri á. Það skiptir máli í svona dæmi.

Hitt vil ég svo líka segja að því var spáð af öllum greiningardeildum bankanna að gengið mundi lækka verulega á þessu ári alveg eins og árið 2001. Það hefur gerst og alveg eins og 2001 bara fyrr en ella.

Ég er svo alveg sammála hv. þingmanni um að hagstjórnarmistök voru gerð hér á síðasta kjörtímabili. Það er ekki bara stóriðjan sem hv. þingmaður er að tala um. Vissulega átti hún sinn þátt í þenslunni. En þegar viðskiptahallinn er grannt skoðaður þá kemur í ljós að uppistaða hans, meiri hluti hans, stafar af ákvörðunum sem Framsóknarflokkurinn tók varðandi húsnæðislánin. Það voru þær ákvarðanir og það voru þau hagstjórnarmistök (GÁ: Bull er í þér maður.) sem leiddu til þenslunnar og þeirrar einkaneyslu sem hv. þingmaður var að tala um svo ég held nú að hv. þingmaður ætti kannski að beina kíki sínum aðeins yfir röðina (Forseti hringir.) að þeim glæsilega formanni Framsóknarflokksins sem þar situr.