135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:14]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Með ákaflega góðum vilja, með miklum velvilja má ef til vill segja að ríkisstjórnin hafi eftir páska byrjað að sýna meðvitundarvott í þessum efnum. En má ég minna hæstv. iðnaðarráðherra á, herra forseti, að það er nú einu sinni sami forsætisráðherrann sem hann er að mæra hér og kom út af ríkisstjórnarfundi í vikunni fyrir páska staddur í ólgusjónum miðjum þegar bæði gengi og hlutabréfavísitölur sveifluðust meira (Gripið fram í.) en nokkru sinni fyrr í sögunni og sagði: „Ríkisstjórnin sér ekki tilefni til aðgerða.“ (PHB: Sallarólegur.) Sallarólegur, það var gæfulegt, hv. þm. Pétur Blöndal. Það er einhver allra undarlegasta yfirlýsing og í raun hættulegasta yfirlýsing sem ég held að ráðamaður hafi lengi gefið enda auðvitað sá sem betur fer hæstv. forsætisráðherra að sér og það var kominn allt annar tónn í hann í lok síðustu viku og vikuna eftir páska. En þessi yfirlýsing forsætisráðherra átti meðal annars sinn þátt í því að Seðlabankinn þorði ekki að láta markaðina opna á þriðjudaginn eftir páska öðruvísi en að grípa til alveg sögulegra og harkalegra ráðstafana. Það er enginn vafi á því að það var ein aðalástæðan.

Varðandi það hver ber hér ábyrgð og sök þá þurfa menn auðvitað að greina vandann og fara yfir söguna til þess að reyna að skilja orsakir erfiðleikanna sem við erum stödd í. Mér er alveg nákvæmlega sama hvort það lendi meira á Framsóknarflokknum, Samfylkingunni eða Sjálfstæðisflokknum. Það huggar mig ekki neitt þó reikningurinn lendi meira þangað eða hingað. (Gripið fram í.) Það sem ég vil gera er að skilja ástandið, af hverju það er eins og það er en fyrst og fremst hvað við þurfum að gera til að komast út úr því, hvernig við eigum að vinna okkur út úr erfiðleikunum og sigrast á þeim því það ætlum við auðvitað að gera. Til þess eru okkar tillögur settar fram. Að því miða þær. Og við skulum bara slá striki þess vegna yfir það sem liðið er og rífast ekkert um það hverjum er meira eða minna um að kenna heldur reyna að sameinast (Forseti hringir.) um að leita leiða út úr vandanum. (Gripið fram í: Er það þingflokksins?)