135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:22]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að eitt af því sem er mikilvægt að gera er t.d. að vera í góðu sambandi við nágrannaþjóðir okkar. Það er reyndar þannig að norrænu seðlabankarnir eiga þegar með sér tiltekið samstarf og ætla sér að vera bakhjarlar hver annars ef á það reynir.

Við höfum talað fyrir því að möguleikar aukins norræns samstarfs á sviði efnahags- og gjaldeyrismála verði sérstaklega skoðaðir. Ég held að það væri æskilegt fyrir Ísland og sérstakt hagsmunamál og keppikefli Íslands að reyna að stuðla að slíkri þróun. Það er ekki ólíklegt að frændur okkar Norðmenn gætu verið áhugasamir, sem EES-þjóð eins og við, um það með okkur.

Varðandi jafnvægisgengið og stöðu þeirra mála og horfur á næstunni þá verð ég því miður að hryggja hv. þm. Pétur Blöndal með því að ég er ekki jafnbjartsýnn á að álið og gjaldeyristekjur af framleiðslu þess muni reynast sú búbót sem hv. þingmaður heldur. Það er ósköp einfaldlega vegna þess að við verðum að muna eftir skuldunum sem falla til á móti þeirra framleiðslu.

Við verðum að horfast í augun við þá staðreynd að nettóvirðisauki álframleiðslunnar, sem eftir verður í hagkerfinu, er hlutfallslega mjög lítill, kannski um einn þriðji af veltunni. Raunar er dæmið enn verra fyrstu 25–40 árin á meðan að erlendu lánin sem falla til vegna byggingar virkjananna eru borguð niður. Þá verður enn minni nettógjaldeyrir eftir. Því miður mun álið ekki reynast sú búbót sem veltutölurnar gætu bent til. Það er ein af þeim staðreyndum sem erlendir greiningaraðilar skoða og velta fyrir sér og ég hef persónulega upplifað af viðtölum við þá.

Ég tel mikilvægt að við, að sjálfsögðu, tölum þannig að við ætlum að vinna okkur út úr þessum vanda. Ég er sammála því að mikilvægt sé að menn tali yfirvegað um þessi mál. Ég er reyndar ekki viss um að ímyndað úthlaup ríkisstjórnarinnar hafi verið skynsamlegt fyrir páskana. Mér sýnist að það hafi í aðalatriðum virkað öfugt, menn hafi tekið það sem merki um akkúrat þá (Forseti hringir.) taugaveiklun sem hv. þm. Pétur Blöndal ræðir um. Það er nefnilega ákaflega mikilvægt við aðstæður af þessu tagi að aðgerðir þeirra valdi ekki misskilningi, jafnvel þótt tilgangurinn sé góður, þ.e. að koma (Forseti hringir.) upplýsingum á framfæri.