135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[12:40]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir hófstillta ræðu. Ég hygg að þetta sé fyrsta ræða og fyrsta andsvar hæstv. viðskiptaráðherra, eftir að hann varð ráðherra, þar sem orðið evra kemur ekki fyrir og ekki heldur Evrópusamband. En kannski hefur hann verið settur í sex mánaða bann í því að tala krónuna niður því að verkefnið er eitt: Það er að fást við þann vanda sem er í íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Menn eiga ekkert nema krónuna og menn verða að standa með henni.

Nú hefur komið í ljós að Fitch og Standard & Poor´s, hin erlendu eftirlitsfyrirtæki, segja bæði að það sé íhugunarefni að fella lánshæfismat Íslands af því að þeir viti ekki hvað ríkisstjórnin er að fást við. Þeir verða ekki varir við hana og á það höfum við framsóknarmenn bent mánuðum saman. Það er alvarleikinn að engar aðgerðir eru komnar til framkvæmda. Vandinn er tvíþættur og hann er sár. Annars vegar þensla og verðbólga sem var hér fyrir innan lands og hefur verið dálítið mikil síðustu tvö árin og bar að taka á strax eftir kosningar. Hinn vandinn er svo umrædd heimskreppa þannig að þetta er ekki þessi eftirspurnarverðbólga sem verið hefur. Allar nauðsynjar eru að hækka, olía, fóður o.s.frv. Það er vandinn.

Ég vil spyrja hæstv. viðskiptaráðherra, af því að ég hef sannfærst um það að vaxtaokur samtímans, sem við höfum stundað í mörg ár, að greiða niður verðbólgu og halda uppi rangri gengisskráningu með okurvöxtum, er hluti af þessum vanda. Og keyra stýrivextina upp í 15% með Tyrklandi, á meðan öll önnur lönd eru undir 5%, hvað sýnist hæstv. viðskiptaráðherra hvað það varðar? Er þar ekki um að ræða einn hluta af þeim mikla vanda sem við þurfum að keyra frá og er ekki tilraunin frá 2001 að mörgu leyti fullreynd?