135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

rannsóknir og stofnstærðarmat Hafrannsóknastofnunar.

[13:47]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er það viðamikið efni að það er kannski erfitt að gera grein fyrir því á tveimur mínútum. Ég hef sótt fjölmarga fundi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd með öðrum nefndarmönnum þar sem við höfum rætt þetta. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson sem hefur þessa umræðu hefur auðvitað mjög miklar skoðanir á málinu, annars vegar til rannsóknarstarfseminnar og hins vegar til stjórnar fiskveiða hér á landi. Ég horfi á hið fræðilega líkt og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir en það skiptir auðvitað verulega miklu máli að búið er að auka mjög hafrannsóknir í tengslum við þær ákvarðanir sem teknar voru sl. sumar og lagt er upp með að það sé gert. Það er hins vegar hægt að deila um hvaða veiðisvæði er verið að nota í togararalli og slíku. Á veiðisvæði Breiðafjarðar í togararalli þessa árs var veiði lítil sem engin og togpunktarnir voru endurákvarðaðir við skipstjórnarmenn og fleiri eftir niðurstöðu ráðsins. Það er einmitt mæliaðferðin sem við erum alltaf að skoða.

Ég veit að hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur mikla þekkingu og reynslu á þessu sviði og hefur lagt upp með ýmsar aðrar aðferðir og ber að virða það. Þá minni ég hv. þingmann á að þegar hann sjálfur lék handbolta fyrir nokkrum árum með hinu frábæra félagi Reyni í Sandgerði undir stjórn ágætisfélaga okkar Guðmundar Árna Stefánssonar þá deildi hann líka alltaf á leikaðferðir liðsins og vildi helst alltaf hanga einn frammi.