135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[14:08]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram prýðileg umræða um þingmál sem allur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stendur að um ráðstafanir í efnahagsmálum. Frumvarpið telur 10 greinar og hefur 1. flutningsmaður, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, gert ítarlega grein fyrir frumvarpinu og einstökum greinum þess.

Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að þingflokkurinn hefur áður lagt fram þingmál sem snúa að efnahagslífinu almennt en markmið þessa frumvarps, eins og segir í 1. gr. þess, með leyfi forseta: „er að grípa til ráðstafana til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika, ná verðbólgu á nýjan leik inn fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans, skapa forsendur til að vaxtalækkunarferli geti hafist, tryggja kaupmátt umsaminna launa og treysta undirstöður atvinnulífs og íslensks þjóðarbúskapar almennt.“

Eins og ég var byrjaður að vísa til kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að upphaf tillöguflutnings okkar megi rekja frá því snemma á síðasta kjörtímabili, einkum er leið á árið 2004 og verulegs ójafnvægis fór að gæta í efnahags- og fjármálalífinu.

Af hálfu stjórnarmeirihlutans hafa tveir ráðherrar tekið þátt í umræðunni, hæstv. viðskiptaráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra, og ber að þakka það en við söknum þess að sjálfsögðu að hér skuli ekki vera oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde og hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, en eins og fram hefur komið í fréttum eru þau bæði stödd í Búkarest í Rúmeníu þar sem þau sitja fund á vegum NATO. Þangað héldu þau í gær í einkaþotu og það er að koma fram í fjölmiðlum nú að neitað er að upplýsa um tilkostnaðinn við þessa för. Er það eitthvert hégómamál? Nei, það er nefnilega hárrétt sem fram kom í máli Péturs H. Blöndals, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að það skiptir máli hvaða merkjasendingar eru sendar frá Alþingi út í samfélagið. Þessi þotuferðalög leiða til ákveðinna hugrenningatengsla vegna þess að þau tengjast þeim einstaklingum sem hafa verið að raka til sín auðæfin á undanförnum árum en eins og við þekkjum öll hefur ójafnvægi og aukin misskipting verið að ágerast í íslensku samfélagi. Það er við slíkar aðstæður þegar verðbólgan stefnir í tveggja stafa tölu, þegar launafólk sem lakast stendur að vígi og millitekjuhóparnir eru uggandi um sinn hag, að menn horfa til þessarar stofnunar, hvaða vísbendingar eru sendar héðan. Það er í þessu samhengi sem þjóðin horfir agndofa á þetta undarlega ferðalag oddvita ríkisstjórnarflokkanna. Menn hefðu haldið að þeir hefðu öðrum hnöppum að hneppa að ekki sé minnst á ferðamátann.

En að öðru leyti, til hvaða aðgerða hefur ríkisstjórnin verið að grípa til að undanförnu? Hafa þær aðgerðir verið til þess fallnar að líma samfélagið saman, að rétta hlut þeirra sem lakast standa að vígi í okkar samfélagi? Nei. Fyrir fáeinum dögum sendi Alþýðusamband Íslands, Öryrkjabandalag Íslands og Landssamband eldri borgara frá sér tilkynningu þar sem lýst var furðu yfir því að hækkanir á greiðslum til lífeyrisþega og örorkuþega, þeirra sem minnstar tekjur hafa í íslensku samfélagi, skuli núna um þessi mánaðamót einungis vera á bilinu 4–5 þús. kr. á sama tíma og nýsamið er um það í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði að launahækkanir til hinna lægst launuðu skuli nema 18 þús. kr. Í niðurlagi ályktunar þessara samtaka sem ég nefndi segir, með leyfi forseta:

„Það er því ljóst að ríkisstjórnin er með þessari ákvörðun sinni að ganga þvert gegn grundvallaráherslu og markmiðum kjarasamninganna — markmiðum sem hún áður hafði tekið undir og samþykkt. Með ákvörðun sinni er ríkisstjórnin að svipta lífeyrisþega mikilvægum og nauðsynlegum kjarabótum.

Alþýðusambandið, Öryrkjabandalagið og Landssamband eldri borgara krefjast þess að ríkisstjórnin standi við fyrri yfirlýsingar sínar og hækki bætur almannatrygginga til jafns við kjarasamninga — það þýðir hækkun um 18.000 kr. á mánuði fyrir þá sem eru á lægstu bótum.“

Þetta eru með öðrum orðum viðbrögð við gjörðum ríkisstjórnarinnar sem nú á ögurstundu og örlagatímum tala með þessum hætti með verkum sínum til þeirra sem lökust hafa kjörin á Íslandi. Sá vandi sem Íslendingar standa frammi fyrir er ótvíræður. Það vefengir enginn að við stöndum frammi fyrir miklum erfiðleikum. Eins og ég gat um áðan stefnir í að verðbólgan fari í tveggja stafa tölu. Það hefur ekki gerst í langan tíma. Það er líka staðreynd að skuldir þjóðarbús okkar eru nú meiri en þær hafa nokkurn tíma verið og eru meiri þegar tekin er hliðsjón af mannfjölda en gerist almennt í heiminum á meðal þróaðra ríkja. Við höfum verið að horfa til þess á undanförnum árum að okkur hafi tekist að ná niður skuldum ríkissjóðs. Það hefur ekki gengið eins auðveldlega hvað sveitarfélögin varðar enda hafa þau búið við erfiðari kost en ríkið en umtalsverður árangur hefur náðst hvað ríkið varðar. Þetta efast enginn um. Hitt er jafnljóst að skuldirnar hafa verið að hlaðast upp á öðrum vígstöðvum og það er hjá bönkunum sem núna skulda mörg þúsund milljarða króna. Þetta er að mörgu leyti spegill á þær þjóðfélagsbreytingar sem átt hafa sér stað vegna þess að þegar allt kemur til alls var ríkið að ráðast í skuldir til að byggja upp okkar samfélag. Það er þess vegna sem eigendur lífeyrissjóðanna, fólkið sem greiðir drjúgan hluta af tekjum sínum til lífeyrissjóða spyr hvort peningarnir séu hættir að vinna fyrir sig. Það er þess vegna sem fólk hefur verið að reisa kröfur á hendur fjármálafyrirtækjunum og horfa til bílífis, til óhófs, til þotuferðalaganna. Það er í þessu samhengi sem þotuferð þeirra tvímenninga, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, skoðast. Þetta er merkjasending til íslensku þjóðarinnar.

Þessi þróun sem hefur verið í þá veru að færa völdin til í þjóðfélaginu, ekki bara skuldirnar heldur völdin í þjóðfélaginu, hefur vakið vangaveltur víðar. Ég vil nefna í því sambandi að í dag var að koma út á netinu bók eftir auðjöfurinn George Soros. Hann er orðinn við aldur og hefur mikla reynslu í þessum heimi fjármálamanna, fæddur í Ungverjalandi árið 1930, er á 78. ári. Hann var að senda frá sér á netinu sína 10. bók í dag, The New Paradigm for Financial Markets. Hvað skyldi George Soros vera að segja að þessu sinni? Þetta er maður sem oft er hlustað á. Hann segir að sá vandi sem fjármálaheimurinn stendur frammi fyrir nú eigi rætur að rekja í þeirri frjálshyggju sem fór að ryðja sér til rúms í byrjun 9. áratugar síðustu aldar með tilkomu þeirra Margrétar Thatcher og Ronalds Reagans í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þá hafi menn farið að létta hömlum af fjármálakerfinu. Sú var tíðin og það er ekki langt síðan þeim hömlum var aflétt af bandarískum bönkum að þeir máttu einvörðungu annaðhvort sinna viðskiptastarfsemi, innlána- og útlánastarfsemi, eða þá hafa fjárfestingar með höndum. Þeim var ekki heimilt að gegna hvoru tveggja hlutverkinu að vera í senn viðskiptabankar og fjárfestingarbankar. Þessum hömlum var létt af og þetta hefur verið gert í þeim hægri vindum sem blásið hafa. Við hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram þingmál þessa efnis þar sem þessar kvaðir verði settar á bankana að þeir séu annaðhvort viðskiptabankar sem taki við lánsfé og láni út eða fjárfestingarbankar, að þeir geti ekki verið hvort tveggja í senn.

Yfirleitt er það svo að bankar hafa vaxið í samræmi við fjárstreymi inn í þeirra hirslur. Íslensku bankarnir vildu stytta sér leið. Það hafa að vísu margir bankar verið að gera, líka vestan hafs og um heiminn allan, fjármálakerfið hefur verið að breytast. Og í staðinn fyrir að bíða eftir því að fá meiri viðskipti frá viðskiptavinum sínum sem vildu fá þá til að geyma peninga sína réðust þeir í fjárfestingar og þar á meðal í áhættufjárfestingar. Það er þetta sem hefur verið að gerast í íslenska bankakerfinu sem hefur þanist svo út að það er ekki lengur í valdi íslensks samfélags að ábyrgjast þá að öllu leyti. Hæstv. forsætisráðherra hefur lýst því yfir, og gerði það á aðalfundi Seðlabankans nýlega, ítrekaði yfirlýsingar í þá veru að íslensk stjórnvöld mundu ábyrgjast bankana. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim ásetningi en vísa þó í ummæli Gylfa Magnússonar hjá Háskóla Íslands sem hefur haft ákveðnar efasemdir um getu ríkisins yfirleitt í þessa veru. Þetta er ég að setja inn í hið stóra samfélagslega samhengi hlutanna og að minna á að kannski hafi menn glaðst um of yfir árangri við að ná niður skuldum ríkisins vegna þess að menn hafa gleymt því að þær voru að hlaðast upp á öðrum vígstöðvum í staðinn.

Það er þessi heildræna sýn sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum verið að minna á í þingmálum sem við höfum flutt á undanförnum árum og gerum einnig í þingmáli því sem er hér til umræðu núna, við gerum grein fyrir þessum sjónarmiðum í greinargerð með frumvarpinu en leggjum jafnframt til markvissar aðgerðir til að taka á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum jafnframt minnt á að ef Íslendingar ætla að ráða við þann vanda sem við stöndum frammi fyrir þá verðum við að gera það sem samfélag, þá verðum við að gera það öll. Ef við ætlum að gera það öll þá verðum við að koma því þannig fyrir að við séum öll á sama báti vegna þess að við leggjumst ekki sameiginlega á árarnar nema við séum á sama bátnum og þá er forsenda slíks að kjörin í þjóðfélaginu verði jöfnuð. Það er þess vegna sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem hefur jafnan lagt áherslu á félagslegar úrbætur, minnir á tillögur sínar í húsnæðismálum, í velferðarmálum til þess að bæta úr kjörunum. Það er þyngra en tárum taki að á þessum tíma skuli skilaboðin frá ríkisstjórninni vera þau sem raun ber vitni og endurspeglast í ályktun frá Öryrkjabandalagi Íslands, verkalýðshreyfingunni og Landssambandi eldri borgara. (Forseti hringir.) Þessu er öllu hægt að breyta og við setjum fram okkar tillögur í það púkk.