135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[14:23]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er búin að standa ágæt umræða um frumvarp þingflokks Vinstri grænna sem snýr að því að taka á í efnahagsmálum. Undir það skal nú tekið og auðvitað er margt ágætt í þessum tillögum vinstri grænna. En hins vegar verð ég að játa að margt í því minnir á hina gömlu tíma þegar ég var að byrja í pólitík. Úrlausnirnar eru svipaðar og voru á þeim tíma þegar við vorum að byrja í pólitík, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Margar eru þær ágætar og geta átt vel við, aðrar síður. Þetta er sósíalísk leið í samtímanum sem hefur tekið upp aðrar aðferðir í efnahagsmálum sem hafa virkað ágætlega í hinum vestræna heimi.

Hitt er annað mál að umræðan er þörf og það mega þeir eiga, vinstri grænir, að þeir hafa hamrað járnið nokkuð heitt í mörg ár gegn þenslu og gegn stórframkvæmdum o.s.frv. Maður getur auðvitað sagt sem svo að ekkert af því sem við glímum við í dag hér heima fyrir þyrftum við að glíma við ef þeir hefðu náð völdum. Þá hefðu allar stórframkvæmdirnar ekki átt sér stað sem munu í framtíðinni skila þjóðarbúinu miklu. Þá hefðu ekki allar þær miklu breytingar sem orðið hafa í framhaldi af EES-samningunum gengið svo hratt yfir. Ég hygg því að hér væri ekki við þá verðbólgu og ekki við þá þenslu að glíma — þessir bjartsýnistímar hefðu ekki risið svona hátt — ef jafnþjóðlegur íhaldsflokkur og vinstri grænir eru, hefði verið í ríkisstjórn. Ég tala nú ekki um ef hann hefði ráðið ferðinni.

Það er nú mikilvægt að eiga þjóðlega íhaldsflokka (Gripið fram í.) því að við margt er að glíma. Það er svo í lífinu, hv. þingmaður, og kannski er nú lífið ekkert öðruvísi en segir frá í Biblíunni. Það koma sjö feit ár. Faraó sá í draumi sínum að sjö horaðar kýr komu upp úr Níl og átu feitu kýrnar og draumurinn var ráðinn. Það er góðæri og svo kemur kreppa og því ber að leggja korn í hlöður og búa sig undir harðari tíð.

Þegar maður fer yfir íslenska efnahagssögu á síðustu öld og kannski fram á þennan dag eru þetta í raun sveiflurnar í sögunni. Hún rís og hnígur og upp koma vandamál sem stöðva okkur á leiðinni þannig að þetta eru svona sjö samfelld ár.

Íslendingar hafa oft staðið sig vel í kreppunni við að ná sér aftur á strik. Þeir standa sig oft betur í kreppu við að fást við efnahagsmál sín en þegar allt veður á súðum. Við sjáum það líka að í góðærinu eyða fyrirtæki og eignamenn því miður mjög miklum peningum í hluti sem ekki skila þeim þjóðararði. Þá rísa kringlurnar og stóru verslunar- og skrifstofuhúsnæðin sem skapa engan gjaldeyri heldur dreifa kröftum og standa hér eins og vitar um alla höfuðborgina til vitnis um ranga fjárfestingu. Illa er farið með fé hjá fámennri þjóð á margan hátt. Það er eins og við getum aldrei lært af því hvað það er dýrkeypt. Þess vegna er mikilvægast við þessar aðstæður og allar aðstæður að átta sig á að ekkert er meira virði en þjóðarframleiðslan. Öflugir atvinnuvegir gefa fólkinu frelsi til að nýta dugnað sinn til framfara. Þá ríkir kraftur í samfélaginu. Efnahagsumgjörðin þarf að vera þannig að einstaklingarnir og fyrirtækin séu tiltölulega frjáls innan einhverra skynsamlegra marka í atvinnulífinu.

Þegar við horfum yfir þessar ágætu tillögur sem eru, eins og ég segi, sumar ágætar en aðrar eru frá eldri tíma, er líka mikilvægt að hugsa um hvað er að og hvað hefur farið úrskeiðis. Þar er ég auðvitað í engum vafa. Ný ríkisstjórn brást ekki við eins og allar aðrar ríkisstjórnir hafa gert eftir að þjóðarsátt var tekin upp. Það var árið 1990. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon átti sæti í ríkisstjórn þegar þjóðarsátt var gerð af nafna hans Hermannssyni með aðilum vinnumarkaðarins sem hafði gríðarleg áhrif til framfara á Íslandi og í rauninni höfum við byggt á þeim grunni síðan. Ríkisstjórnirnar, bæði árið 1995 og 1999, að ég tali nú ekki um árið 2003, börðust við ná tökum á toppum verðbólgunnar og unnu að því að hagvöxtur og framfarir væru á Íslandi. Tókst það allþokkalega.

Þess vegna er ábyrgðin öll á núverandi ríkisstjórn sem tók við tiltölulega góðu búi. Þensla tveggja síðustu ára hefur reyndar verið mjög mikil sem stafar kannski af því að menn réðust í mjög stórar framkvæmdir í hagkerfinu eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon minnti á í ræðu sinni, kannski dálítið ofvaxnar miðað við hvað hagkerfið er lítið sem hefur haft mikil áhrif. Ríkisstjórnin horfði þó beint fram á veginn og leit hvorki til hægri né vinstri og sagði að hér væru allir hlutir í lagi.

Það er nýr flokkur í ríkisstjórninni sem heitir Samfylking. Það er sundraður flokkur á margan hátt með ólík sjónarmið. Ég er klár á því að sá flokkur ræður þessari ríkisstjórn að ýmsu leyti. Hann er sá sem fer með völdin og ræður ferðinni. Forsætisráðherra hefði sennilega aldrei farið í þotunni nema af því að drottningin gerði kröfu um að svo veglegir væru reiðskjótarnir og menn sæju að þar færu höfðingjar um himinhvolfið.

Ég verð að segja fyrir mig að kannski er það nú það minnsta með þoturnar. Hitt vekur athygli mína hvað við viljum jafnan sýnast stórir og forustumenn ríkisstjórnarinnar buðu með sér öllum helstu vinum sínum á stórfjölmiðlunum, Fréttablaðinu og Stöð 2, Ríkisútvarpinu og Morgunblaðinu. Og mér skilst að það hafi nú bara einn fjölmiðill sem hafnaði því að sitja í þessari drossíu himinloftanna, það hefði verið Ríkisútvarpið. Þeir hafi kjörið að vera á sínum litla Willysjeppa á öðrum vegi og þáðu ekki slíkt boð. Þotuferðin sýnir dálítið stórlæti við þessar aðstæður þótt ég taki undir að stjórnmálamenn hafi mikil verkefni og þurfa að komast hratt yfir.

Ég hef sagt að ríkisstjórnin minnir mig mjög á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sem var við völd 1987–1988 með prímadonnum töluverðum, glæsileg ríkisstjórn sem bundnar voru miklar vonir við. Þorsteinn bjó í skugga Steingríms Hermannssonar sem var vinsæll forsætisráðherra. Jón Baldvin var prímadonna og fór mikinn. Þessi ríkisstjórn leystist upp og sprakk á skömmum tíma og réði aldrei við að koma sér saman um neitt í efnahagsvandanum sem þá blasti við. Þá var sjávarútvegurinn að fara norður og niður eins og Sverrir Hermannsson orðaði það, grundvallaratvinnuvegur Íslendinga. Ríkisstjórnin náði ekki tökum á því og því fór nú eins og fór og ný ríkisstjórn tók við sem tókst að hemja verðbólguna.

Nú eigum við í rauninni við allt annan vanda að etja. Það er vandinn sem var hér í hagkerfinu heima, mikil verðbólga og þensla, bjartsýni og trú, eyðsla og svo þetta sem við höfum verið að gagnrýna. Maður áttar sig betur og betur á að við getum ekki haldið niðri verðbólgu á Íslandi til lengdar með tvennum hætti, að keyra upp stýrivexti Seðlabankans og vexti samfélagsins um leið og gengið er rangt skráð. Þannig halda menn verðbólgunni niðri. Það skapar viðskiptahalla, það skapar erfiðleika í atvinnulífinu.

Ég heyri það sagt úr ferðamannaiðnaðinum að eftir að gengið breyttist séu miklar skráningar á ferðamönnum aftur til Íslands af því að verðlagið sé viðráðanlegt eftir að gengið féll. Forsætisráðherra hefur í raun viðurkennt að gengið átti að staðnæmast annars staðar. Það fór langt yfir þau mörk sem hann ætlaði. Ég hef nú bent á að einn stærsti vandinn er ef til vill sá að Seðlabankinn hefur fá stýritæki í sinni tösku og beitir vöxtunum. Það er auðvitað mjög umhugsunarvert þegar ríkisstjórnin kennir einhverjum vondum aðilum úti í heimi um að þeir hafi ráðist að Íslandi. Það er auðvitað gert til að sameina þjóðarsál og það er sjálfsagður hlutur að rannsaka og fara yfir það allt saman.

Ég er samt hér um bil viss um að niðurstaðan er sú að það eru og hafa verið veikleikar í hagkerfinu sem við framsóknarmenn höfum verið að benda á síðan í haust og þurfti að taka á strax þá. Því miður hefur það ekki verið gert. Nú segja eftirlitsstofnanir erlendis, bæði Fitch og Standard & Poor's, að lánshæfismat Íslands sé að veikjast og þeir velti fyrir sér hvort þeir eigi að fella það. Þeir segja: Við vitum ekkert hvað þessi ríkisstjórn er að gera. Þeir segja það sama og við hér í stjórnarandstöðunni. Við vitum ekkert hvað hún er að gera. Hvernig ætlar hún að bregðast við þessum vanda?

Það er náttúrlega mjög alvarlegur hlutur að búa við slíka óvissu því að ríkisstjórnin er fyrst og fremst kosin til þess að takast á við efnahagsstefnuna og efnahagsmálin á Íslandi. Það er hennar verk og þjóðin hefur kosið hana til þess. Nú blasir við í fyrsta sinn eftir að þjóðarsátt var gerð að stöðug verðbólga er orðin mjög há og mun á næstu mánuðum og kannski missirum mælast um og yfir 10%. Heimilin, fyrirtækin og fólkið í landinu tapa miklum peningum og lífskjaraskerðingin er að verða mikil af því að ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um nein úrræði til þess að bregðast við því vandamáli sem hér er eða þessu heimsvandamáli. Auðvitað er ekkert einfalt að takast á við þessa kreppu. Hún er kannski af öðrum toga en við höfum þekkt í áratugi því að auðvitað blasir við á heimsmarkaðnum að nauðsynjar heimila og fyrirtækja eru að hækka upp úr öllu valdi. Olían er dýrari en hún hefur verið í 150 ár. Ríkisstjórnin vill ekkert gefa eftir af gjöldum sínum hér heima.

Áburðurinn og fóðrið hækka á heimsmarkaði. Kornið og matvælin einnig þannig að heimurinn stendur frammi fyrir nýju aðstæðum. Þetta berst auðvitað allt hingað og það er ekkert víst að stýrivextir Seðlabankans sem eru keyrðir upp í 15% eins og í Tyrklandi, vegi neitt í því. Kannski skekkja þeir myndina.

Við sjáum að í Bandaríkjunum og víða á Vesturlöndum reyndu stjórnendur að bregðast við heimskreppunni, af því það var vandamálið strax á sumardögum, fyrst og fremst með því að ná tökum á fjármálamörkuðunum. Það gerðu þeir með því að keyra niður vexti til þess að bjarga fjármálamörkuðunum og um leið heimilunum og peningaeign þjóðanna. Ríkisstjórninni bar því að grípa til aðgerða og standa vaktina með Seðlabankanum í stað þess að snupra hann eins og við heyrðum hér á haustdögum, en ríkisstjórnin aðgerðarlaus.

Skuldir heimilanna hafa vaxið mjög. Matvælin og allar þarfir heimilanna hafa hækkað mjög í verði. Hér er að verða mikil kjaraskerðing og við framsóknarmenn óttumst að ríkisstjórnin láti þessa lífskjaraskerðingu fyrst og fremst bitna á launafólki og þeim sem síst þola það.

Við framsóknarmenn höfum tekist á við erfið mál í 90 ár. Við höfum lifað lengi með þessari þjóð og eigum þátt í mörgum stærstu hagvaxtarskeiðum og framfaraskeiðum íslensku þjóðarinnar. Við höfum líka þorað að standa vaktina þegar kreppa hefur verið í aðsigi og jafnan barist þá og keyrt fljótt út úr henni. Við þorum að sigla í ólgusjó og kunnum með segl að fara og mótor.

Við höfum lagt fram ítarlegar tillögur sem þjóðin þekkir og hefur séð margvíslegar aðgerðir til þess að mæta þessum vanda. Það eru aðgerðir sem eru kannski nær samtímanum í því að búa til markað og aðstæður að nýju til þess að komast (Forseti hringir.) út úr þessum vanda. (Forseti hringir.) Um leið og ég þakka vinstri grænum fyrir tillögur þeirra vek ég athygli á að við erum á (Forseti hringir.) sama báti og þeir, við viljum berjast og takast á við þennan vanda.