135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[14:41]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ferð mín til Kanaríeyja átti nú ekki að vera trúboðsferð heldur hvíldarferð en ég skal viðurkenna að ég hitti þar marga Íslendinga og átti þar þrjá fundi. Það sóttu 360 einn fundinn hjá mér og 250 annan og 200 sérstaka hátíð sem þar var haldin. Það var gaman að hitta Íslendinga þar í sólskini og sunnanvindi. Fólk úr öllum flokkum hafði áhyggjur af ríkisstjórninni eins og ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Ég var ekki að tala um að félagshyggja og öll þau sjónarmið sem vinstri grænir standa fyrir væru gamaldags. Framsóknarflokkurinn hefur á 90 árum gengið í gegnum miklar breytingar en honum ber að halda í sinn gamla grunn. Margt af því sem talað var um fyrir 90 árum var grunnurinn að velgengni samfélaganna. Það þarf því ekki að skamma okkur fyrir frjálshyggju eða alla vega ekki þann sem hér stendur. Ég er ekki frjálshyggjusinnaður.

Ég vil hafa Framsóknarflokkinn á miðjunni með viðhorf til vinstri og félagshyggju. Það er mín stefna. Við sjáum hvernig vandinn hleðst ekki síst upp í frjálshyggjulöndunum og vissulega höfum við að sumu leyti farið glannalega að hér í okkar kerfi, t.d. varðandi sjálftöku launa hjá einstökum aðilum sem farið hefur úr hófi fram og sem ekki hefur samræmst íslenskum viðhorfum. Sumir héldu að eilífðin væri bara velgengni og hátt flug en nú eru þeir margir að koma niður, því miður. Vonandi brotlenda þeir ekki en þeir verða að vera blóð af okkar blóði og brot af landsins sál og lifa með þessari þjóð á skikkanlegum kjörum.

Í Bandaríkjunum eru menn nú að átta sig á því að Bush-stefnan mun valda því að sennilega munu tvær milljónir manna þar missa húsnæði sitt. Verið er að leggja þar til að menn hverfi frá gengdarlausri (Forseti hringir.) frjálshyggju þeirra ára og horfi meira til félagshyggjunnar. Ég hygg því að ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon séum að mörgu leyti bræður hvað félagshyggju varðar (Forseti hringir.) á ýmsum sviðum enda báðir sprottnir úr Framsóknarflokknum gamla. (Forseti hringir.)