135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[14:44]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ekki ætla ég að sverja það af mér að vera kominn af mörgum góðum vinstri sinnuðum framsóknarmönnum á norðausturhorni landsins þó að ég væri aldrei í þeim flokki sjálfur. Hann var kominn allt of langt til hægri fyrir minn smekk strax þegar ég komst til vits og ára. (Gripið fram í.) Já, ég vona að það sé svo að við getum átt margt sameiginlegt í félagshyggju, ég og hv. þm. Guðni Ágústsson, og að við getum frekar sótt okkur fyrirmyndir til hins besta í norrænni félagshyggju og norrænum velferðaráherslum, félagshyggju og samvinnu og þá er nú strax talsverðum hindrunum úr vegi rutt.

Vandinn er hins vegar herleiðing Framsóknarflokksins á undanförnum árum og ég kemst ekki hjá því að vekja athygli á að það var nánast broslegt að heyra hv. þingmann tyggja það að öll ábyrgð á núverandi vanda okkar væri núverandi ríkisstjórn að kenna. Ég og hv. þingmaður höfum dyggilega snúið bökum saman í því að berja á núverandi ríkisstjórn fyrir ónýti hennar, sofandahátt og andvaraleysi gagnvart versnandi aðstæðum mánuð frá mánuði. En það þýðir auðvitað ekki annað en að horfast í augu við þá ábyrgð sem fyrri ríkisstjórn ber líka vegna þess að þessir hlutir hafa verið að hlaðast upp allt frá 2004–2005 eins og rækilega er farið yfir í greinargerð og fylgiskjölum með þessu frumvarpi.

Ég vil líka beina eftirfarandi í allri vinsemd til hv. þingmanns og formanns Framsóknarflokksins: Eru það ekki mistök af Framsóknarflokknum að setja sig í þær stellingar í umræðum um þessa hluti nú að þurfa að verja allt sem fyrri ríkisstjórn gerði eins og hún hafi engin mistök gert en nú sé allt orðið ómögulegt og Sjálfstæðisflokkurinn heillum horfinn? Þetta er sami Sjálfstæðisflokkurinn og réði ferðinni í tíð fyrri ríkisstjórnar og fór með efnahagsmál. Hvers vegna (Forseti hringir.) getur ekki hv. þm. Guðni Ágústsson viðurkennt að formönnum Sjálfstæðisflokksins voru á þeim tíma jafnmislagðar hendur og þeim (Forseti hringir.) eru nú?