135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[14:48]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hef áður getið um það í andsvari að það er margt gott í frumvarpinu, það tekur á mörgum þáttum en nokkurra þátta sakna ég. Undanfarin fjögur til fimm ár hafa komið fram mjög breytt og ný sjónarmið og ný hugtök sem stjórnmálamenn og aðrir þurfa að fást við. Það er verið að tala um jöklabréf, skuldavafninga, framvirka samninga og alls konar ný hugtök og sjónarmið sem taka þarf á. Eitt af því er áhættutaka, þegar skuldsett fyrirtæki kaupa hlutabréf og svo einstaklingar líka. Það er mikil áhætta og ég hafði, frú forseti, verulegar áhyggjur af sumum og sérstaklega einu íslensku fyrirtæki sem er FL Group, ég nefni það, þegar það byrjaði að taka þessa óskaplegu áhættu úti í heimi. Ég nefndi það á þeim tíma, reyndar ekki voðalega hátt, að við skyldum vera undir það búin að einhver skellur myndaðist af því. Þegar maður kastar upp krónu eða kastar upp tening getur sexan komið upp og það er eins með þá áhættu sem menn taka þarna, hún getur að sjálfsögðu komið upp. Og hún kom upp. Sem betur fer var sá vandi leystur og þá létti mér, frú forseti, mér létti þegar vandinn var leystur í nóvember. Síðan hefur mér verið tiltölulega létt þrátt fyrir alla óáran. Menn þurfa nefnilega að átta sig á því hvar áhættan liggur.

Mikið hefur verið talað um viðskiptahalla. Menn segja að hann sé mjög mikill og það er rétt en þar þurfa menn að greina á milli: Hvað er viðskiptahalli með opinbera ábyrgð, sveitarfélaga og ríkissjóðs, og hvað er viðskiptahalli með ábyrgð annarra einstaklinga eða einkafyrirtækja? Þegar Baugur kaupir t.d. fyrirtæki í London eða í Englandi með láni frá enskum bönkum myndar það viðskiptahalla, vextirnir af því láni. Það kemur íslenska ríkinu eða opinberum aðilum á Íslandi ekkert við og meira að segja hefur verið sagt að hagnaðurinn af fjárfestingunni komi ekki eins hratt inn eins og vextirnir af lánum þannig að viðskiptahallinn sé oftalinn. Ég held að menn þurfi að fara að gera greinarmun á þeim viðskiptahalla sem myndast með opinberri ábyrgð og þeim sem myndast með ábyrgð erlendra lánastofnana og banka því það er þeirra vandamál ef illa fer með þá fjárfestingu sem í hlut á, það er ekki vandamál íslenska ríkisins.

Menn hafa talað um gengið og það hefur fallið mjög hratt. Ég held að það sé vegna þess að þessi jöklabréf, sem að upphæð voru komin upp í 700–800 milljarða, hafi allt í einu verið leyst upp eða að hræðsla hafi komið í þann hóp manna sem fjárfesti í þeim víða um heim þegar innleysa átti þessi jöklabréf — og það hafi valdið því að gengið fór svona langt niður eins og sýnir sig en ég held að það sé ekki til langs tíma. Ég held að Kárahnjúkar, sú góða framkvæmd, mannkynsvæna framkvæmd sem bjargar mannkyninu frá koldíoxíðlosun — fram kom í svari hæstv. umhverfisráðherra að sá sparnaður sem Kárahnjúkavirkjun veldur mannkyninu í koldíoxíðlosun, öndvert við það að þetta ál yrði framleitt í Kína með rafmagni sem framleitt er með kolum eins og er verið að gera alla daga núna, að reisa álver í Kína, sú losun er jafnmikil og sexföld losun Íslendinga af umferð. Það er það sem við spörum mannkyninu með því að hafa reist Kárahnjúkavirkjun. Ég ætla að vona að ýmsu í íslenska ákvæðinu verði breytt þannig fyrir atbeina umhverfisráðherra að við getum hjálpað mannkyninu áfram með því að virkja meira. En það sem Kárahnjúkar virka núna er að halda uppi genginu vegna þess að þeir eru að byrja að flytja út ál sem fer síhækkandi á heimsmarkaði og stórhækkun á verði sjávarfangs veldur því líka að þrýstingur er að myndast á það að selja gjaldeyri og það heldur genginu uppi. Það vinnur gegn áhrifum jöklabréfanna þannig að ég hef trú á því að gengið verði einungis til skamms tíma í þeim lægðum sem það er í í dag.

Það er svo merkilegt að þegar olía hækkar á heimsmarkaði og menn fara í mótmælaaðgerðir, bæði í Bandaríkjunum og víðar, þá er það í rauninni gott fyrir Íslendinga. Það er gott fyrir Íslendinga vegna þess að olíuverð er tengt orkuverði. Orkuverð er nátengt álverði því að álverð er framleitt með raforku. Það eru ekki þekktar aðrar aðferðir til að framleiða ál og einn fjórði eða stór hluti af útflutningi Íslendinga er einmitt ál. Það er að koma í ljós að Íslendingar eru orkuframleiðsluþjóð, nákvæmlega eins og Sádi-Arabar og Rússar. Þess vegna getum við óbeint glaðst yfir því þegar olíuverð hækkar en við finnum auðvitað fyrir því í pyngjunni þegar við borgum það við bensínstöðina, það er önnur saga, en seinna meir mun það koma okkur til góða. Matarverð hefur líka hækkað í heiminum og það merkilega er að það kemur okkur Íslendingum líka til góða. Við erum ein mesta matvælaframleiðsluþjóð í heimi með þeim fiski sem við flytjum út. Við borðum ekki nema 1% af þeim fiski sem við veiðum þannig að hvort tveggja er mjög bjart. Þetta þurfum við að hafa í huga þegar menn líta á stöðuna í heild sinni og til framtíðar.

Menn eru að tala mikið um skuldsetningu heimilanna og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um það sem einhvern mikinn ógnvald en hann gleymdi eignunum sem eru þar á móti. Eignir, sérstaklega fasteignir, hafa hækkað á Íslandi sem aldrei fyrr. Þær hafa hækkað miklu meira en skuldirnar sem hvíla á eignunum þannig að eignamyndun Íslendinga undanfarin fimm til sex ár hefur verið umtalsverð og þeir eru mjög vel í stakk búnir til að mæta áföllum, miklu betur en flestar aðrar þjóðir í heiminum.

Hér hefur verið talað um, og sumir hv. þingmenn sagt, að verðbólgan sé að ná tveggja stafa tölu. Í fjölmiðlum og víðar heyrir maður sönginn um það að nú fari allt að hækka. Er þetta ekki samráð, frú forseti? Eru menn ekki að búa til verðbólgu? Af hverju ætti verðlag að hækka út af hækkandi gengi? Það er ekki endilega samhengi þar á milli. Ég man ekki til þess að þegar krónan styrktist hafi allir hlaupið til og spurt: Af hverju lækka ekki bílarnir? Af hverju lækkar ekki kexið? Ég man ekki til þess. Og ég man ekki til þess að það hafi yfirleitt lækkað. (Gripið fram í.) Ég man ekki til þess að þessar vörur hafi lækkað. Af hverju skyldu þær þá hækka núna þegar gengið fellur tímabundið í örstuttan tíma? Ég held að það sé vegna þess að hv. þingmenn og fréttamenn og aðrir eru alltaf að segja við kaupmennina: Þið megið hækka verðið. Þið eigið að hækka verðið um 20%. Ég segi þeim að þeir eigi ekki að hækka það neitt, þeir áttu að vera búnir að tryggja sig fyrir þessu. Það er til tæki í dag, sem lengi hefur verið þekkt, sem heitir framvirkur gjaldeyrismarkaður og öll góð fyrirtæki og vel rekin eiga að vera búin að tryggja sig fyrir gengisfellingu. Það virðist IKEA vera búið að gera og það eiga sjávarútvegsfyrirtækin að sjálfsögðu að vera búin að gera líka og ættu nú undanfarna daga að hafa fylgt því sérstaklega vel eftir. Ef ég ræki sjávarútvegsfyrirtæki væri ég búinn að selja allar gjaldeyristekjur næsta árs a.m.k.

Sá vandi sem við glímum við — þó menn segi að við séum að kenna öðrum um kenni ég ekki neinum um að olíuverð hafi hækkað á heimsmarkaði, hækkað úr 40 dollurum fyrir nokkrum árum upp fyrir 100 eða 110. Ég er ekki að kenna neinum um það, það er bara staðreynd. Menn geta séð þetta á markaði á netinu. Þetta er vegna þess að Indland og þó sérstaklega Kína eru farin að nota olíu í stórum stíl, bæði til að hita húsin sín og þeir eru farnir að keyra bíla eins og við. Þeir þurfa þessa olíu, eftirspurnin verður mikil og verðið hækkar. Það er alveg sama hvað við gerum hérna, þó að við mótmælum og blásum í lúðra og stoppum umferð og ég veit ekki hvað, verðið verður áfram hátt þannig að það er lítið við því að gera annað en að laga rekstur og neyslu að þessu háa verði.

Lausafjárkreppan kom líka að utan. Ég er ekki að kenna neinum um en bankarnir fóru að kaupa þessa skuldavafninga og lögðu alltaf meira og betra mat á þá. Allt í einu féllu þeir í verði og enginn vill eiga þá núna sem þýðir að lausafjárkreppa varð um allan heim. Það er engum um að kenna, þetta er bara svona. Það slær til Íslands, bankarnir fá ekki lán erlendis, skuldatryggingaálag hækkar o.s.frv. Þetta eru áföll sem allar þjóðir í heiminum þurfa að glíma við, ekki bara Íslendingar. Allir bankar í heiminum eru í þessum vandræðum. Við Íslendingar erum hins vegar, frú forseti, afskaplega vel undir það búnir að mæta þessum áföllum. Ég hugsa að við séum hvað best undir það búnir af flestum þjóðum.

Ég ætla að nefna nokkur dæmi. Það hefur verið afgangur af ríkissjóði í fjölda ára. Það er framlag ríkissjóðs til baráttunnar gegn þessum áföllum. Það er nánast ekkert atvinnuleysi á Íslandi. Það er engin þjóð með slíka stöðu, ég kannast ekki við það. Miklar launahækkanir hafa orðið undanfarin ár, fasteignaverð hefur hækkað, eignamyndun hjá almenningi er mjög mikil, alla vega hjá þeim sem ekki hafa keypt íbúð á síðustu tveimur til þremur árum. Fyrirtækin eru mjög þróttmikil, mjög snögg að bregðast við og ég efa það ekki að þau muni ráða við vandann. Sterkur útflutningur, ál og fiskur, og ferðamannaiðnaður heldur uppi genginu, heldur krónunni að sjálfsögðu uppi. Við höfum líka mjög sterkt lífeyrissjóðakerfi, eitt hið sterkasta í heiminum, Norðmenn og Hollendingar veita okkur smásamkeppni. Eins og ég gat um áður erum við líka orku- og matarútflutningsríki og það er það sem við þurfum að leggja áherslu á við þá sem eru að skoða möguleika íslensks atvinnulífs. Við erum til framtíðar mjög sterk þannig að ég sé ekki að menn þurfi að fara á taugum en auðvitað er ákveðinn vandi að glíma við og því fagna ég frumvarpinu.

Í frumvarpinu er ýmislegt gott eins og t.d. það að styrkja Seðlabankann. Reyndar er ekki getið um það að hann geti gert samninga við önnur ríki, ég mundi frekar leggja til að hann gerði samninga við aðra seðlabanka um gagnkvæma styrkingu, að þeir tryggi hver annan. Einnig er verið að tala um að hvetja til sparnaðar. Ég er mjög hlynntur því og nú eru bankarnir loksins farnir að hvetja almenning til sparnaðar. Kannski vex innlendur sparnaður, sem hefur verið allt of lítill, eyðsla hefur verið allt of mikil. Og bankarnir eru farnir að spara sjálfir. Sumir eru jafnvel farnir að lækka stjórnarlaunin hjá sér þannig að það má vel vera að sparnaðarhvatning verði í kerfinu. Ég er hins vegar ekki hrifinn af því að fara að niðurgreiða slíka þróun með ríkispeningum, með því að fella niður fjármagnstekjuskatt á þann sparnað. Ég er ekki hrifinn af þeim enda frumvarpsins.

Í 5., 6. og 7. gr. frumvarpsins er meira fjallað um önnur vandamál, byggðatengd vandamál, sem ég sé ekki að tengist efnahagsvanda þjóðarinnar í heild sinni þó að sjálfsögðu megi ekki horfa fram hjá því, og það er svo sem ágætt að taka á því. Einnig er talað um að styrkja Fjármálaeftirlitið. Ég hef mörgum sinnum lagt það til en það vill svo til að það eru bankarnir sjálfir og fjármálakerfið sem borga það eftirlit. Ég hef lagt til að það verði stóraukið og mundi gjarnan vilja sjá það tvöfaldað. Það er hagur bankanna að hér sé sterkt og trúverðugt Fjármálaeftirlit sem vinnur hratt og vel og fellir snögga og vel ígrundaða úrskurði þannig að menn viti hvað má gera og hvað má ekki gera.

Svo er það með stóriðjustefnuna sem talað er um í 8. gr. Ég var með fund í hv. efnahags- og skattanefnd ásamt með fjárlaganefnd um daginn og menn voru ekki sammála um hvort þensla væri á Íslandi eða ekki. Sumir sögðu að það væri þensla, aðrir sögðu að hún væri fyrir löngu búin, það væri engin þensla. Það er náttúrlega spurningin um það hvora skoðunina menn hafa, hvort menn vilja fá fleiri álver. En það sýnir sig að það er gott að hafa álver til að standa undir útflutningi og halda uppi gengi krónunnar. (Gripið fram í.)

Þjóðhagsráðið, ég saknaði þess að ekki er gerð nein krafa um menntun eða hæfileika, það er mjög flókið mál að fjalla um efnahagslíf nútímans. Svo var ég með athugasemd við ákvæði til bráðabirgða. Ég held að þeir sem flytja svona frumvarp, um að breyta fjárlögum, ættu í rauninni að flytja fjáraukalög samhliða af því að þingmenn flytja frumvörp sjálfir og eiga ekki að vera að ákalla framkvæmdarvaldið hvað það varðar. En öll þessi umræða er mjög þörf.