135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[15:10]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur aldrei neinn efast um að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur heilmikið vit á peningum og hann hugsar mikið um efnahagsmál þó að við séum ekki alltaf sammála honum, hann er svona sér á báti á margan hátt í þinginu. Það ber að virða. En hv. þingmaður er þekktur markaðsmaður, hann vill að lögmálin virki. Út af því ástandi sem nú er, viðskiptahallanum, gengisskráningunni og öllum þeim erfiðleikum sem eru í efnahagslífinu, hefur Vilhjálmur Egilsson, sem var á margan hátt á sama báti og hv. þingmaður, sett fram þá kenningu að skuldatryggingaálagið bendi til þess að Ísland sé álitið illa komið og að sú tilraun sé fullreynd að halda niðri verðbólgu með rangri gengisskráningu og hæstu vöxtum í heimi.

Það má leiða að því líkur að við séum stödd í vítahring. Er það svo? Ég man eftir því að þegar Steingrímur Hermannsson var á þingi gagnrýndi Sjálfstæðisflokkurinn hann oft fyrir að vilja stýra vöxtum með handafli. Það er því spurning þegar við förum að hugsa um þessi gengismál hvort við séum alltaf að vinna gegn útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegum Íslendinga í þágu eyðslunnar.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji að við séum komin í öngstræti og þurfum að breyta um stefnu og hvaða leið hann sér þá fyrir sér sem væri markaðsvænni en þessi handbremsa Seðlabankans. Vantar Seðlabankann fleiri stýritæki eða hefur ríkisstjórnin brugðist í því að takast á við efnahagsvandann hér heima og að búa sig undir þá miklu fjármálakreppu sem nú hefur brotið á ströndum Íslands?