135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[15:12]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru afskaplega og viðamiklar og merkilegar spurningar. Í fyrsta lagi varðandi skuldatryggingaálagið. Skuldatryggingaálag íslensku bankanna og ríkisins, sem reyndar skuldar ekki neitt eða mjög lítið, hefur dregist inn í ákveðið sog annarra fyrirtækja vegna þess að menn þekkja ekki nægilega vel til Íslands eða íslenskra banka og það hefur eiginlega lítið sem ekkert að gera með greiðsluhæfi bankanna. Þeir eru sagðir standa mjög vel. Skuldatryggingaálagið segir því ekki neitt og ályktun í þá veru að hátt skuldatryggingaálag þýði slæma stöðu er bara ekki rétt. Það er röng ályktun, hún er dregin í öfuga átt.

Ég vil benda á að Hafnarfjarðarbær var að fá lán núna í vikunni með að mér skilst 75–80 punktum yfir Libor á meðan ætlast er til að skuldatryggingaálag ríkisins sé 400 punktar yfir Libor. Þetta sýnir hvað þetta er fáránlegt og það sýnir líka að fyrst að Hafnarfjarðarbær gat tekið lán með 75 punktum ætti ríkinu ekki að verða skotaskuld úr því að fá lán líka með 50, 60 punktum yfir Libor.

Ég held að menn eigi því ekki að horfa of mikið á skuldatryggingaálagið þótt menn verði að sjálfsögðu að horfa á það líka, en það er ákveðin vanþekking sem veldur því að hvað það er hátt.

Varðandi það hvort ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt. Hvað geta ríkisstjórnir heimsins gert? Hvað er horft á, halla á ríkissjóði eða afgang á ríkissjóði? Það er það sem horft er á. Það er framlag ríkissjóðs til þess að berjast fyrir stöðugleika og íslenski ríkissjóðurinn hefur verið rekinn með afgangi ár eftir ár eftir ár. Betra getur nú framlag ríkisins ekki verið.