135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[15:14]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður svaraði hv. þingmaður ekki þessari stóru spurningu. Hann þarf örugglega lengri tíma til þess að hugleiða þetta. 15% stýrivextir — ég sá að formaður Samfylkingarinnar hvatti til þess að þeir yrðu hækkaðir enn þá meira. 15% voru í rauninni rothögg sem þýðir lok, lok og læs. Það á enginn að taka lán í slíku umhverfi. Þetta mun hafa mikil áhrif á skuldug heimili og skuldug fyrirtæki. Íslenska krónan er í miklum vanda stödd og það hefur kannski vantað í alla þessa umræðu að eitthvað stæði með krónunni í öllum þessum átökum. Það var nú það sem ég var að velta fyrir mér.

Það væri fróðlegt fyrir ríkisstjórnarflokkana og Samfylkinguna að skoða t.d. matvælaverðið núna í samanburði við Evrópu. Hvernig skyldu matvælin standa núna í samanburði við Evrópu þegar gengið er orðið með þessum hætti? Þá er Ísland á þann mælikvarða sennilega orðið ódýrara en það var áður, enda er mér sagt að erlendir ferðamenn skrái sig núna grimmt til Íslands af því að það sé orðið ódýrara fyrir þá að borða hér og koma hingað en var.

Ég velti því fyrir mér, af því að ég trúi á margt í þeim vísindum sem hv. þingmaður hefur sett fram og veit að hann hefur mikið vit á efnahagsmálum, hvort hann eygi einhverjar leiðir til þess að markaðurinn ráði meiru. Þetta er í rauninni svolítil handstýring sem ríkisvaldið stundar hér í gegnum vextina, að gengisskráningin sé þessi, forsætisráðherra viðurkennir að hún þurfi að vera en hún hafi bara farið óvart hingað. Ég hefði viljað hlusta á fræðilegt erindi hjá hv. þingmanni þar sem hann svona upplýsti okkur af meiri nákvæmni um þessi mál því að ég veit að hann býr yfir þeirri þekkingu.