135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[15:17]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að biðja hv. þingmann velvirðingar á því að ég gleymdi þessu atriði. Ég var svo upptekinn af hinum þar sem mér þóttu þau svo merkileg. Það er rétt að Seðlabankinn vinnur samkvæmt ákveðnu módeli og ég ætla ekki í sjálfu sér að gagnrýna það. Módelið byggir á því að menn hækki vexti, þá verði allar fjárfestingar og neysla dýrari og sparnaður meira spennandi. Það á að leiða til þess að fólk hætti að eyða og byrji að spara. Það á að leiða til þess.

Ég spurði að því hvort þeir hefðu reiknað með jöklabréfunum í því módeli. Svo var ekki, enda var það nýjung og meira að segja svo torskilið að það er erfitt að átta sig á því. En jöklabréfin virka þannig að þau hækka gengi krónunnar og hvað þýðir það? Það þýðir útsölu á erlendum vörum, útsölu á bílum, kexi og svo framvegis og það er kannski sérstaklega útsalan á bílunum, bensíni og olíu sem veldur því að það fer í gang ákveðinn neyslugleði hjá almenningi öndvert við það sem hækkun stýrivaxta á að virka. Nú eru 15% vextir óskaplega háir og ég skil ekki fólk sem kaupir jeppa með bílaláni upp á 25%. Ég bara skil það ekki. En þetta mun vera að gerast. Þetta veldur þenslunni og þetta er sá vandi sem við erum að glíma við núna og jöklabréfin eru núna að þrýsta genginu niður í ákveðinn tíma þangað til þau eru búin.

Ferðamannaiðnaðurinn, eins og hv. þingmaður nefndi, mun að sjálfsögðu græða á þessari gengisfellingu eins og sjávarútvegurinn, eins og áliðnaðurinn, eins og allur útflutningur. Hann mun græða mikið á þessu og ég vona að þeir aðilar hafi selt dollara alls næsta árs, dollaratekjurnar, framvirkt á genginu þegar gengið var 166 eða eitthvað svoleiðis fyrir nokkrum dögum.