135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[15:37]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skattar á fyrirtæki hafa verið lækkaðir en samanburðurinn sem hv. þm. Pétur Blöndal vísar til, og flokksbræður hans gera iðulega, er eins og að bera saman epli og appelsínur. Það er ekkert flóknara en það. Ég ætla bara að benda ykkur á eina staðreynd sem þið skuluð hafa í huga næst þegar þið farið á flot með þetta. Árið 2000 varð efnahagur þriggja stærstu íslensku bankanna minni en þjóðarframleiðsla Íslands á ári en nú er hún tíföld. Hvaða þýðingu hefur það? Jú, það hefur þá þýðingu að að sjálfsögðu stækkar kakan. Það er ekkert af því sem ríkisstjórnin hefur verið að gera í sjálfu sér. Þetta hefur stækkað m.a. með auknum lántökum og útrás íslensku bankanna. Að sjálfsögðu leiðir það til þess að það koma fleiri krónur í kassann þó að prósentan lækki. En á sama tíma og skattar á fyrirtækjum hafa verið lækkaðir þá er um ofurskatta að ræða á einstaklinga í landinu og það er það sem er málið.

Síðan varðandi það hvort ríkisstjórnin geti gert að því þó að þjóðin lifi lengur og annað í þeim dúr og að framlag í lífeyrissjóð hækki um 2% þá er það líka óraunhæfur samanburður vegna þess að miðað við það hvernig hv. þm. Pétur Blöndal setti það fram áðan þá er þetta spurning um það hvort hinn lögþvingaði sósíalíski sparnaður sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið á og hækkaði um 2% gerir það að verkum að fólk tekur ekki sömu krónurnar til að leggja fyrir annars staðar. Það er nú einu sinni þannig að við sem erum markaðshyggjufólk og frjálslynt fólk teljum og við byggjum á því að þjóðfélagsborgararnir eigi að fá að haga lífi sínu með þeim hætti sem þeim þykir hagfelldast og best og það ættir þú að muna, hv. þm. Pétur Blöndal, að við erum ekki að standa í því að ráðskast með það hvort fólk eigi fyrir flatskjái, sparnað eða jeppa. Því verður fólk að fá að ráða sjálft.