135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[15:40]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Ég er í sjálfu sér ekki, frú forseti, að styðja þvingaðan skyldusparnað gegnum lífeyrissjóði, það er mér ekkert sérstaklega mikið hugðarefni. En ég bendi á að þau 2% sem iðgjöldin hækkuðu voru á kostnað fyrirtækjanna. Þau komu ekki fram í þeirri gífurlegu hækkun launa sem hefur átt sér stað á Íslandi síðustu 10 árin. Ég man ekki alveg síðustu tölur, hvort það er 70% raunhækkun launa umfram verðlag. Það skyldi nú ekki vera að sú mikla hækkun sé vegna þess að skattar voru lækkaðir á þennan skattstofn eins og á hagnað fyrirtækja? Það skyldi nú ekki vera að þetta sé ekki allt saman náttúrulögmál, það komi bara af sjálfu sér einhvern veginn af tilviljun? Og það skyldi nú ekki vera að bankarnir hafi farið í útrás bara sisvona? Sér hv. þingmaður fyrir sér að ríkisbankarnir gömlu hefðu farið í útrás? Sér hv. þingmaður virkilega fyrir sér að ríkisbankarnir sem þurftu styrk frá ríkinu reglulega, að þeir hefðu farið í útrás? (JM: Ónei.) Ónei, þeir hefðu aldrei farið í útrás og þeir hefðu aldrei getað skilað þessum gífurlegu tekjum inn til landsins eins og þeir gera í dag. Það er nefnilega sú ákvörðun fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins að einkavæða bankana sem veldur þessu. Það er ekki út í bláinn að það kemur allt í einu mikil útrás heldur er það vegna þess að það er búið til umhverfi fyrir fyrirtækin sem gerir þetta kleift. Þetta er ekki bara tilviljun. Það er ekki alveg sama hver er skipstjóri í brúnni, það er nefnilega þannig — (GAK: … borga skuldirnar þeirra.) Það kemur nefnilega í ljós, það þekkja þeir sem eru í útgerð, að það skiptir máli hver er skipstjóri svo að mikið veiðist. Sumir skipstjórar veiða aldrei neitt og aðrir veiða alltaf.