135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[16:20]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er hárrétt athugasemd hjá þingmanninum. Þetta er í rauninni það sem ég vakti strax athygli á á síðasta sumri, að ætla að horfa á stöðuna eins og hún er komin, viðskiptahallann, verðbólguna, alla þessa þenslu, allt það sem var að gerast á húsnæðismarkaðnum — ég veit ekki hvernig það stendur núna — og farið að sjá í að bankarnir færu á ákveðinn hátt offari.

Það mun koma mjög harkalega niður á ungu skuldugu fólki og fyrirtækjunum að ríkisstjórnin segir: Það er ekkert að. Það ber ekki að gera neitt. Haldnir eru þriggja tíma fundir og svo kemur forsætisráðherra og segir: Við sjáum enga ástæðu til að grípa inn í. Þannig við erum algjörlega sammála hvað þetta varðar, það verður stundum að stoppa við.

Við sjáum þetta náttúrlega líka með vextina sem hér eru komnir. Yfirdrættirnir, fólk borgar 25% vexti sem ekki þekkjast neins staðar í veröldinni. Menn hafa ekki gáð að sér af því að ríkisstjórnin lét sem svo að eiginlega væri ekki við nein verkefni að fást, þetta mundi velta áfram. Hún þandi út fjárlögin hér í haust eins og kosningar væru á morgun og boðaði eyðslu- og sóunartíma.

Ég tók undir þetta allt með hv. þingmanni á haustþinginu, og við framsóknarmenn. Við bentum á þessa vá strax að kosningum loknum og reyndar á síðasta kjörtímabili. Það vissu það allir að þenslan var of mikil og það bar að stíga á bremsur og takast á við hlutina eins og var gert árið 1999 og 2003, það hef ég margsagt. En það var ekki gert.

Ég vil svo að lokum óska hv. þingmanni til hamingju með frumvarpið. Þar eru mörg ágæt úrræði en maður sér að hv. þingmaður er auðvitað sósíalískur, þjóðlegur, íslenskur íhaldsmaður eins og ég vissi alla tíð.