135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[16:22]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru nú meira og minna fallegar nafngiftir sem hv. þm. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, velur mér og ég kveinka mér ekki undan þeim. Ég vil á móti óska Framsóknarflokknum til hamingju með — ef hv. þingmaður vill leggja eyrun við — þær miklu framfarir sem flokkurinn hefur sýnt nú á nokkrum mánuðum. Það er á margan hátt gleðilegt að Framsókn er einhvern veginn að finna sig (Gripið fram í.) og vakna til lífsins eftir hina löngu feigðargöngu með sjálfstæðismönnum í tólf ár sem fór illa með hann og helmingaði hann í fylgi og meira en það í styrk og áhrifum. En nú sýnir Framsókn viss batamerki og það er vel. (Gripið fram í.) Við munum að sjálfsögðu snúa bökum saman í stjórnmálabaráttunni á næstu vikum eins og við mögulega getum, ekki veitir af.

Aðalatriðið í mínum huga er það, og við deilum mörg hér inni, og örugglega flest, áhyggjum af ýmsu, þó það sé síður en svo að allt sé svart. Að sjálfsögðu höfum við að ýmsu leyti sterkar undirstöður til að vinna okkur í gegnum og út úr þessum erfiðleikum. En ein hugsun gengur ekki upp, frú forseti, og hún er sú að óráðsíuveislan geti haldið áfram. Það er mesta ábyrgðarleysið að halda að hægt sé að taka inn nýjan skammt af álverum og láta svo vaða á súðum áfram. Það er ekki valkostur. Við verðum að takast á við vandann, vinna okkur út úr honum og það er engin einföld og sársaukalaus leið til í þeim efnum. Það verður bara að horfast í augu við það.

Markmiðið á að vera að verja heimilin, atvinnuna og atvinnulífið í landinu. Ég get tekið undir það með síðasta ræðumanni að áhyggjur mínar eru fyrst og fremst hjá yngri fjölskyldunum í landinu sem eru skuldsettastar með lánin á herðunum. Það er ekki síst í þeirra þágu sem allt verður að gera sem hægt er til að berja verðbólguna niður á nýjan leik og ná tökum á ástandinu.