135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

524. mál
[16:48]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er vel hugsanlegt af því ég er tekinn að hníga að aldri og minni mitt tekið að reskjast með að ég muni ekki alveg rétt. En ég man ekki betur en að það hafi verið einn af þeim framsýnu hlutum sem hv. þm. Guðni Ágústsson bryddaði upp á þegar hann gegndi embætti landbúnaðarráðherra að opna á innflutning krókódíla til Húsavíkur. Hv. þingmaður minnist hér þess. Það var í viðtali við fjölmiðil á norðausturhorninu þar sem hann mærði þessa möguleika. Ég tek alltaf Framsóknarflokkinn alvarlega. Þess vegna tók ég þetta alvarlega.

En ef það er svo að hv. þingmaður hafi verið að fara með kerskni og kannski notað þessa hugmynd á þorrablóti þar sem hann er nú meistari allra meistara þá bið ég hann afsökunar á því að ég tók þetta alvarlega. Mér fannst satt að segja að þetta væri alveg í stíl við svo margt sem komið hefur fram í stefnu Framsóknarflokksins í landbúnaðarmálum. Þar hefur mér fundist allt standa á haus.

Hv. þingmaður talar mikið um nauðsyn þess að vernda almúgann fyrir verðbólgu og bæta kjör hans. En þó vitum við það að hv. þingmaður hefur staðið manna harðast gegn því að leyfa innflutning á vörum á sæmilegu verði til landsins, vörum sem tengjast landbúnaði, t.d. kjöti. Ástæðan sem hv. þingmaður hefur alltaf nefnt til þess að verja sína afstöðu er sú að það gæti hugsanlega leitt til einhvers konar smits í landinu. Ég hef alltaf litið svo á að það væri undansláttur og fyrirsláttur og sannfærðist um það þegar ég las þessa frétt um krókódílana sem hv. þingmaður lét eftir sér hafa á sínum tíma. Hins vegar vil ég taka það skýrt fram að ef hér er um misminni að ræða þá bið ég bæði formanninn og flokkinn allan afsökunar á því.

Ég hvet hv. þingmann til þess að hætta ekki að vera framsýnn og leyfa sér þann munað að hugsa um nýja hluti alveg eins og hann hefur leyft sér að hugsa varðandi svissneska frankann og ýmislegt fleira. Hins vegar er það þannig að núna höfum við mjög framsýnan mann í stól landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem ætlar að stíga skrefin sem hv. þingmaður hefði átt að gera þegar hann gegndi með svo prýðilegum hætti embætti landbúnaðarráðherra á sínum tíma.