135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

524. mál
[16:53]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Út af orðum sem féllu hér um kompuna þá er rétt að greina þingheimi frá því að hæstv. viðskiptaráðherra er fluttur úr hinum glæsilegu húsakynnum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins gamla og hefur nú skrifstofu á nákvæmlega sama stað og hv. þm. Guðni Ágústsson meðan hann gegndi sínu fyrra embætti sem landbúnaðarráðherra. Svo hugsanlega lifa þar gamlir eimar eftir í lofti og það getur vel verið að það sem hv. þingmaður vildi sem ráðherra sitji eftir í loftinu og inni í hugarsveim og djúp hæstv. viðskiptaráðherra.

Þegar ég sagði að stundum stæði allt á haus hjá Framsóknarflokknum og í stefnu fyrrverandi landbúnaðarráðherra, þá var það kannski ofmælt. En ég minnist þess sérstaklega, herra forseti, og allt í lagi að rifja það hér upp þegar hv. þingmaður kom í ræðustól þegar hætta var á fuglaflensufaraldri og hvatti þingmenn og landsmenn alla sérstaklega til að komast ekki í neina beina snertingu við dýr í útlöndum. Hann meinti það svo mikið að það næsta sem ég sá til hæstv. þáverandi landbúnaðarráðherra var í sjónvarpinu þar sem hann var að kyssa, ekki stork, heldur strút í Kína. Svo efndi nú hæstv. landbúnaðarráðherra, að hann fór með flangsi utan í erlend dýr sem vel hefðu getað verið smituð af fuglaflensu og ég minnist þess að hv. þingmaður varð fárveikur þegar hann kom heim. En sem betur fer náði hann góðri heilsu.

Á síðustu dögum hefur hv. þingmaður mælt fyrir því að matarskatturinn verði afnuminn. Ég vona að það sé af góðum hvötum mælt en ég velti því fyrir mér hvort það kunni að vera að það séu síðustu leifarnar af uppgjöri hv. þingmanns við forvera sinn í stóli formanns Framsóknarflokksins. Hv. þingmaður skrifar nú heila bók til að gera upp þær sakir. En hann gleymdi matarskattinum. Eins og þingheimur man þá vildi Halldór Ásgrímsson hafa sem hæstan matarskatt og það var upphafið að deilunum milli hans og núverandi formanns að hv. þm. Guðni Ágústsson var annarrar skoðunar, eins og reyndar ég á sínum tíma.