135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

524. mál
[16:55]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er hárrétt sem hv. þingmaður rifjar upp með strútinn í Kína. (Gripið fram í.) Og það segir manni að það beri að fara varlega. Að vísu kyssti ég aldrei þennan strút en ég veiktist af kampýlóbakter og var illa haldinn í nokkra daga og mig grunar að snerting mín við strútinn hafi valdið því eða … (Gripið fram í: Lifði strúturinn þetta af?) ég hef ekki hugmynd um það hvort hann lifir eða deyr og er nákvæmlega sama um þennan strút. En þetta segir okkur að það ber að varast sjúkdóma og stundum ber að varast snertingu við það ókunna þar sem maður þekkir ekki afleiðingarnar. Þessi orð voru ekki töluð út í loftið og fuglaflensan vofir enn yfir heiminum. Ríkisstjórnin er enn að fást við afleiðingar og viðbrögð ef svo illa færi að hún breiddist út. Þetta er því stórmál.

Hvað virðisaukaskatt af matvælum varðar þá er hv. þingmaður mér sammála um það. Samfylkingin ályktaði um það og ræddi um það á síðasta vetri þegar við lækkuðum virðisaukaskattinn úr 14% í 7% að honum bæri að fara öllum, (Iðnrh.: ... Halldór var ekki sammála.) Halldór, nei, það kann að vel vera að Halldór hafi haft aðra skoðun en hann var samt í ríkisstjórn sem leiddi þetta til lykta, að lækka hann um helming. Þessa alls er getið í bók minni Guðni af lífi og sál og farið yfir þau átök sem urðu við Jón Baldvin Hannibalsson sem var leiðtogi þessarar skattlagningar. Eins og hv. þingmaður man (Iðnrh.: Hann er ...) var hið fallega hús þeirra hjóna á Vesturgötunni grýtt með eggjum til að mótmæla þessum skatti.

Nú er kannski mikilvægt að blessuð ríkisstjórnin sem þarf að bæta kjör fólksins og lækka matvælaverð bregðist við og felli niður þennan skatt. Ég vil a.m.k. spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé þeirrar skoðunar og vilji beita sér fyrir því að þessi sameiginlega hugsjón okkar verði að veruleika. Því það er svo mikilvægt fyrir þá sem lökust hafa kjörin að maturinn sé sem ódýrastur. Það var hin gamla skoðun (Forseti hringir.) Eysteins Jónssonar og Framsóknarflokksins og þá skoðun erfði ég og vil berjast fyrir henni.