135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstöfun andvirðis vatnsréttinda kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls.

516. mál
[17:08]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál er athyglisvert þótt ekki láti það mikið yfir sér. Það kemur einkanlega til af því að um kristfjárjarðir gegnir nokkuð öðru en flestar aðrar jarðir sem hið opinbera hefur yfir að ráða. Þannig voru kristfjárjarðir, eins og hæstv. ráðherra rakti, gefnar á sínum tíma til þess að afgjaldið eða arðurinn af þeim yrði fátækum til afnota. Og ekki bara það heldur voru þær gefnar af eigendunum, þeim sjálfum til sáluhjálpar og þær voru gefnar Jesú Kristi. Hér er því verið að fara út á ystu mörk eignarréttarins með að hlutast til um eignir sem sannanlega eru ekki Alþingis heldur Jesú Krists og því ber að fara að með gát.

Til eru mörg vond fordæmi um meðferð kristfjárjarða af hálfu hins opinbera valds undanfarna áratugi og jafnvel aldir þar sem þing og áður konungsvald hafa sölsað undir sig þessar eignir án þess að skila afgjaldinu í rétt átt. Sú leið sem er hér er farin í þessu frumvarpi að líta á kristfjárjarðirnar sem sjálfseignarstofnun er góðra gjalda verð en ég vil þó benda á það og leggja til að í meðförum hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar verði það kannað hvort þarna sé nægilega skýrt að orði kveðið um hvert endurgjaldið á að renna. Mér þykir í sjálfu sér orðalagið „félagslegar framkvæmdir í sveitarfélaginu“ ekki algerlega ná þeirri hugsun sem gefendurnir höfðu í huga, sem er að arðurinn yrði fyrir fátæka. Því mundi ég kalla eftir því að í nefndinni yrði kannað hvort ekki væri hægt að hnykkja þarna betur á og binda afgjaldið til fátækraframfærslu í þrengri skilningi, þ.e. til stuðnings eða aðstoðar við þá sem tekjulægstir eru í sveitarfélaginu. Ég tel það æskilegra en að nota óskýrt og ekki alveg gagnsætt orðalag eins og félagslegar framkvæmdir sem ég sjálfur veit satt að segja ekki hvað þýðir.